145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

uppbygging áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi.

150. mál
[20:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn í umræðu um þetta mál sem við vinstri græn lögðum fram. Það er ekki að ósekju að það var lagt fram. Þörfin er auðvitað gríðarlega mikil og því miður hefur ráðherra ferðamála ekki staðið sig sem skyldi að okkar mati. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að Vegagerðin hugi að þeim áningarstöðum sem hún hefur til þess að vita hvort hægt sé að leysa það ástand sem við blasir, sérstaklega á þessum löngu leiðum þar sem ekki er hægt að komast á salerni og hefur m.a. verið nefnd leiðin austur á Höfn og auðvitað fleiri leiðir.

Hér kemur fram hjá nefndinni að engan tíma megi missa úr því sem komið er. Málinu er samt vísað til ríkisstjórnarinnar og þar er ákveðin vinna í gangi vegna þessara mála. Ég heyrði viðtal við ferðamálaráðherra í útvarpinu á dögunum. Það er kominn 2. júní og það er núna fyrst verið að eiga samtal við skóla eða veitingastaði á dreifðustu stöðunum á ferðamannaslóðum til þess að hafa lengur opið eða semja við þá á einhvern hátt. Auðvitað er þetta eitthvað sem á ekki að vera að leysa núna þegar komið er fram í júní. Það á að vera löngu búið að leysa þessi mál. Það er ekki nýtt vandamál að við séum að taka á móti þúsundum gesta. Því miður hefur það margvísleg önnur áhrif eins og við höfum séð, ekki bara varðandi salernismál heldur önnur mál. Hér er verið að takast á við hrakvinnu sem ferðageirinn hefur því miður orðið uppvís að ásamt öðrum. Það eru mörg mál sem ört vaxandi atvinnuvegur þarf að kljást við og við með okkar innviði. Það er því miður þannig að það eru ekki bara salernismálin sem hér eru undir, það eru innviðamálin að svo mörgu leyti, vegakerfið og annað slíkt sem ekki hefur verið staðið nægjanlega vel að.

Við erum að fara inn í þriðja sumar þessarar ríkisstjórnar og við erum nánast, að okkur finnst a.m.k., á sama stað. Þeir sem sinna ferðamönnum og ferðaþjónustuaðilar segja að ástandið hafi lítt batnað og þá sérstaklega með tilliti til vegasamgangna og áningarstaða og annars slíks sem liggur undir skemmdum eins og við þekkjum.

Það er í sjálfu sér í öllu falli skárra að málið fari inn í þessa aðgerðavinnu hjá Stjórnstöð ferðamála. Ég vona að maður fari að sjá eitthvað verða að veruleika þar, þ.e. einhverjar aðgerðir, ekki bara einhverjar áætlanir heldur að verkin verði látin tala.

Virðulegi forseti. Ég er að hugsa um að láta þetta duga. Ég ætlaði ekki að lengja þessa umræðu neitt sérstaklega, en vildi nefna þetta í ljósi orða ráðherrans á dögunum þar sem mér þótti vera heldur seint í rassinn gripið að ræða málin núna þegar komið er sumar.