145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

328. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu frá umhverfis- og samgöngunefnd um tillögu til þingsályktunar um bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

Með tillögunni er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að setja bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum og að ráðherra móti í kjölfarið áætlun sem miði að því að gúmmíkurli úr dekkjum verði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það er að finna og að því verki verði lokið fyrir árslok 2016.

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að henni sé ætlað að girða eins hratt og unnt er fyrir notkun eitraðra og e.t.v. heilsuspillandi efna á svæðum sem ætluð eru m.a. til íþróttaiðkunar barna og unglinga og að brýnt sé að gripið sé til aðgerða í þeim efnum án tafar enda óréttlætanlegt að heilsu og öryggi barna sé teflt í hættu á meðan beðið sé óyggjandi sannana fyrir skaðsemi efnanna.

Á fundum nefndarinnar kom fram það sjálfsagða sjónarmið að vernda eigi börn og ungmenni sem nota gervigrasvelli hérlendis til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Þau eigi að njóta vafans hvað varðar þau efni sem notuð eru á vellina og ef líkur séu á að notað hafi verið heilsuspillandi gúmmí eigi að fjarlægja það og skipta því út fyrir hættuminni efni. Gestir nefndarinnar voru allir sammála þessum sjónarmiðum og að mati nefndarinnar hafa á síðustu vikum og mánuðum og við meðferð málsins í nefndinni komið fram upplýsingar sem benda eindregið til þess að það kurlaða dekkjagúmmí sem notað hefur verið á marga gervigrasvelli hér á landi, og reyndar undir leikvelli ýmiss konar, sé að öllum líkindum heilsuspillandi og jafnframt að til séu aðrar tegundir af gúmmíi sem notað er á gervigrasvelli sem séu ekki jafn heilsuspillandi þrátt fyrir að vera töluvert dýrari. Komið hefur fram að mörg sveitarfélög muni á næstunni skipta um gúmmí á sínum gervigrasvöllum og kann fjöldi valla að skipta nokkru máli um það hversu hratt það verk verður unnið. Þannig gerir Reykjavíkurborg t.d. ráð fyrir því að taka nokkur ár í að skipta út gúmmíinu á sínum völlum og gera það samhliða endurnýjun vallanna.

Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að skipta heilsuspillandi dekkjakurli út fyrir annað hættuminna efni. Mikilvægt er að fyrir liggi að það efni sem sett verði á vellina verði í raun hættuminna. Hér er verið að vísa til þess að kurlinu úr dekkjagúmmíinu hefur verið dreift beint á vellina, í öðrum tilvikum hefur dekkjakurlið verið málað og með tímanum afmáist málningin af gúmmíkurlinu, þá erum við aftur komin með kurlið sem er eitrað eða gefur frá sót og önnur efni og hins vegar verður málningin sem fer af líka eftir á völlunum.

Það er því mikilvægt að í raun verði kurlinu skipt út fyrir hættuminna efni og nefnt var í því samhengi iðnaðargúmmí. Því er áríðandi að fyrir liggi staðfestar rannsóknir á þeim efnum sem notuð verða og ódýrasta efnið verði ekki valið einfaldlega vegna kostnaðar. Þegar kemur að aðbúnaði barna í leik og tómstundum er mikilvægt að heilsa þeirra sé í fyrirrúmi. Að mati nefndarinnar ber að hraða þessu ferli eins og kostur er og gera sveitarfélögum kleift að vinna saman að verkefninu.

Samkvæmt framansögðu er það mat nefndarinnar að skipta beri út kurluðu dekkjagúmmíi á gervigrasvöllum landsins fyrir annað hættuminna efni og að sveitarfélögum beri að taka höndum saman um verkefnið. Það er einnig mat nefndarinnar að betra sé að ályktun Alþingis feli í sér samvinnu ríkis og sveitarfélaga um verkefnið, enda standa ákveðin lagaleg sjónarmið í vegi fyrir því að Alþingi álykti um bann við notkun tiltekinna efna.

Nefndin leggur því til þá breytingu á tillögunni að í stað þess að ráðherra verði falið að banna notkun tiltekins efnis verði ráðherra falið, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun, að móta áætlun um að kurluðu dekkjagúmmíi verði skipt út fyrir hættuminni efni og að því verki verði lokið fyrir árslok 2016.

Nefndin leggur til þá breytingu að tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun, að móta áætlun sem miði að því að kurluðu dekkjagúmmíi verði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það er nú að finna. Því verki verði lokið fyrir árslok 2016.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Katrín Júlíusdóttir, sá sem hér stendur, Birgir Ármannsson, Svandís Svavarsdóttir og Róbert Marshall.

Hv. þingmenn Elín Hirst, Ásta Guðrún Helgadóttir og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.