145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

tölvutækt snið þingskjala.

425. mál
[20:39]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. allsherjar- og menntamálanefndar um þingsályktunartillögu um tölvutækt snið þingmála. Þetta er eitt af þeim málum sem hefur kannski reynst erfitt að útskýra nákvæmlega vegna þess að það þykir fulltæknilegt. Ég mun þó gera mitt besta til að gera því góð skil hvaða tækifæri felast í þessu, en ég hygg að innan örfárra ára, ef þessi tillaga verður samþykkt á þessu þingi, verði ljóst hversu mikil tækifæri felast í því að nýta upplýsingatæknina til fulls þegar kemur að efni og innihaldi og sniði þingskjala. Alþingi gefur nú þegar út ákveðin gögn, sem við skulum kalla hliðargögn. Það eru gögn sem fjalla um eða innihalda upplýsingar um þingmálanúmer, heiti þingmála, flutningsmenn, í hvaða nefndum þau eru og þar fram eftir götunum. Þessi gögn eru notuð með góðum árangri í dag. Ég nefni sem dæmi vefsetrið sem sá sem hér stendur ber nokkra ábyrgð á sem heitir Öryggisventillinn, og er á ventill.is. Það er vefur þar sem hægt er að niðurhala þingmálum sem gerir almenningi kleift að greiða atkvæði með eða á móti málum í heild sinni og kvitta undir með svokölluðum íslykli sem er tegund af auðkenningu á netinu og þykir örugg, tiltölulega örugg, þótt öryggisstigin séu reyndar misjöfn eftir aðferðum sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér. Það er dæmi um að hægt er að nota opin gögn með mjög góðum árangri í lýðræðislegum tilgangi. Ég hef sömuleiðis skrifað hugbúnað sjálfur sem ég nota og þingflokkurinn minn notar líka þessi gögn til þess að halda utan um þingmál og greina umsagnir eftir því hvort þær eru jákvæðar eða neikvæðar o.s.frv. Það hefur hjálpað okkur í okkar þingstörfum; það er nú kannski atriði sem almenningur hefur ekki sérstakan áhuga á, en aðalatriðið er að gögn eru mjög gagnleg og það er ekki endilega sjáanlegt neitt fyrir fram í hvað þau verða gagnleg. Það er gagnlegt að gefa þau út á tölvutæku og tölvulæsilegu sniði, þannig að hægt sé að nota þau í hugbúnaðargerð. Það er algjör óþarfi í sjálfu sér að vera að velta fyrir okkur endalaust í hvaða tilgangi hægt væri að nýta þau, við eigum einfaldlega að bjóða upp á þau.

Þau dæmi sem ég hef rakið hér á undan eru dæmi um það sem hægt er að gera með þeim gögnum sem nú þegar eru gefin út. Við mína hugbúnaðargerð, gagnvart gögnunum sem Alþingi gefur út, lendi ég á ákveðnum þröskuldi og það er efni þingskjalanna sjálfra, þ.e. hugtök á borð við grein eða málsgrein, málslið eða lög, tilvísanir í dóma eða eitthvað því um líkt; munurinn á efni greinargerðar og efnisinnihaldi og því um líkt. Út frá forritunarlegu sjónarmiði er mjög erfitt að gera þetta í dag. Það er svo sem mögulegt, en það verður alltaf mjög erfitt og er háð því að framsetningin á vef Alþingis breytist ekki mikið með tímanum.

Mig langar að gera umsögn eins fyrirtækis að umtalsefni; það er dæmi um fyrirtæki sem að mínu mati yrði sennilega hvað fyrst til að nýta slík gögn á góðan hátt, en það er fyrirtækið Fons Juris ehf. Það ágæta fyrirtæki hafði áhyggjur af því að ríkið færi að gera eitthvað sem tilheyrði einkaaðilum, það er sjónarmið sem ég skil ágætlega vegna þess að það er fyrirtæki sem hefur sett þó nokkra vinnu í að gera það kleift sem þessari þingsályktunartillögu er ætlað að gera kleift. Ég fjalla kannski meira um það seinna, en ég ætla að fara yfir nefndarálitið sjálft, koma því frá mér, og reyna síðan að útskýra betur tæknilegu möguleikana á bak við þessa tillögu.

Þá vitna ég beint í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„Markmið tillögunnar er að stuðla að því að þingskjöl verði tæknilega þannig úr garði gerð að unnt verði að hanna tölvuforrit sem geti aðgreint og skilið tilvísanir til einstakra lagagreina, málsgreina, málsliða o.fl. þess háttar, svo og tilvísanir til reglugerða og lagabálka, dóma, opinberra úrskurða o.s.frv. Með tillögunni er lagt til að forseti Alþingis skipi vinnuhóp sem móti tillögur að innleiðingu og nánari útfærslu þessara breytinga.

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að með þessari breytingu á framsetningu þingskjala verði stigið mikilvægt framfaraskref samfara sífelldri og örri tækniþróun í þá átt að fullnýta þá möguleika sem þróunin býður upp á. Þar eru jafnframt nefnd dæmi um þá möguleika sem skapast mundu við þessa breytingu sem geta m.a. auðveldað almenningi og hagsmunaaðilum á tilteknum sviðum að fylgjast með lagabreytingum á afmörkuðum þáttum gildandi réttar og stuðlað að auknu réttaröryggi.

Umsagnir sem bárust um málið eru almennt mjög jákvæðar og enginn umsagnaraðili lýsir andstöðu við framgang tillögunnar. Gagnrýni á tillöguna beinist helst að því að breytingarnar sem hún felur í sér kunni að leiða til þess að Alþingi stígi of langt inn á svið úrvinnslu gagna og þar af leiðandi inn á svið sem eigi frekar heima hjá einkaaðilum. Á móti var bent á að skýrleiki í birtingu laga sé almenningi mikilvægur og að Alþingi og aðrar opinberar stofnanir geti ekki látið hjá líða að haga útgáfu- og upplýsingamálum eins og best verði á kosið og í takt við tækniframfarir. Nefndin ræddi þessi sjónarmið og tekur undir hin síðarnefndu. Telur nefndin að með því að auðvelda almenningi að leita sér upplýsinga í lagasafninu og fylgjast með breytingum á lögum sé stuðlað að auknu gagnsæi í lagasetningu sem sé lykilþáttur í lýðræðislegu samfélagi.

Í umsögn héraðsskjalasafns Kópavogs er bent á að hverfulleiki rafrænna gagna geti bitnað á sönnunargildi þeirra, en án þess sönnunargildis sé tilgangslaust að vinna með þau. Til að gæta nauðsynlegrar varúðar verði að líta á rafrænt form sem viðbót við þau form sem áður séu fyrir hendi, en það leysi þau ekki af hólmi. Af þessu tilefni tekur nefndin fram að þingsályktunartillöguna beri ekki að túlka svo að ætlunin sé að láta rafræn gögn leysa prentuð gögn af hólmi, heldur varði tillagan breytingu á framsetningu gagna sem nú þegar eru rafræn.

Nefndin leggur til nauðsynlegar breytingar á þeim dagsetningum sem koma fram í tillögugreininni og auk þess að vinnuhópnum sem lagt er til að verði skipaður verði veittur rýmri frestur til að móta tillögur sínar.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 2. mgr. tillögugreinarinnar:

a. Í stað orðanna „1. maí 2016“ komi: 1. september 2016.

b. Í stað orðanna „árslok 2016“ komi: 1. september 2017.“

Undir þetta skrifa hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, Haraldur Einarsson, Svandís Svavarsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Vilhjálmur Árnason og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, síðastnefndi hv. þingmaður með fyrirvara.

Við viljum við þetta tilefni nefna tiltekið dæmi, útlendingafrumvarpið sem við höfum átt við upp á síðkastið, risavaxið mál sem margir þingmenn hafa þurft að sökkva sér ansi mikið ofan í. Þar fann ég tilfinnanlega fyrir því sjálfur að umsýsla í kringum það mál og breytingartillögurnar, sem voru afskaplega margar, hefði getað verið miklu auðveldari ef til væri hugbúnaður sem væri sérstaklega sniðinn til að eltast við hluti eins og greinar og málsgreinar og því um líkt. Bara sem dæmi komu margar umsagnir frá No borders og Rauða krossinum og fleirum sem vörðuðu tilteknar greinar. Þetta hefði verið hægt að kortleggja sem dæmi. Við þá vinnu hefði maður viljað geta séð með einföldum hætti yfirlit yfir allar þær greinar frumvarpsins sem umsögn tiltekinna aðila hefði varðað. Það hefði flýtt fyrir, það hefði flýtt fyrir öllum þingheimi. Það hefði hjálpað öllum þingheimi að hafa aðgang að slíkum hugbúnaði og það hefði verið heldur auðvelt að skrifa þann hugbúnað ef þessi gögn væru sett fram á þann hátt sem tillagan gerir ráð fyrir að verði á endanum tilfellið.

Með því að setja efnið fram á tölvutæku sniði er hægt að gera svo marga hluti sem ekki er hægt að sjá fyrir fram nákvæmlega hvernig yrðu gagnlegir. Undrið við vísindin og tæknina er það að maður sér ekki fyrir fram hvaða gagn verður af hlutunum, þess vegna er oft farið svolítið blint áfram í rannsóknum og vísindum, þ.e. þegar kemur að væntanlegu notagildi. En þó er það stundum þannig að við vitum að tilteknar breytingar munu skila sér í aukinni framþróun, auknum afköstum eða einhverju slíku. Það er klárlega tilfellið hér.

Nú hef ég nefnt einhver dæmi þar sem tölvutækt snið þingmála mundi gera mikið gagn, beinlínis gera gagn fyrir þingmenn, ekki bara þingmenn sem kunna að forrita heldur þingmenn sem þurfa að garfa í stórum málum; ég fullyrði það alveg hiklaust. Verði þessi tillaga raungerð þá hlakka ég mikið til að vinna með þessi gögn vegna þess að tækifærin eru afskaplega mikil. Ég hygg að fyrirtæki á borð við Fons Juris ehf. komi allra helst til með að njóta þessara gagna. Ég skil samt áhyggjur þess ágæta fyrirtækis sem hefur eytt miklum tíma í að raungera hluta af þessari tillögu, en ég hygg, og nefndin tekur undir það, að það sé einfaldlega skylda Alþingis að setja gögnin fram með þeim hætti að þau séu sem best nýtanleg.

Við þá sem hafa áhyggjur af því að þeirra vinna sé þá ekki lengur verðmæt segi ég: Hún er samt verðmæt. Hún býður upp á áframhaldandi möguleika og ég mundi halda að tölvutækt snið þingmála leysti einfaldlega úr læðingi enn fleiri tækifæri sem slík fyrirtæki og slíkir aðilar, hvort sem það eru einkafyrirtæki eða áhugasamir úti í bæ, geta nýtt sér til þess að fara að enn hraðar inn í framtíðina. En vel á minnst, ég vona að ég hljómi ekki eins og auglýsing fyrir þetta fyrirtæki, Fons Juris, en það er skýrt dæmi um það sem mér finnst að eigi að vera mögulegt að gera. Það er til dæmis sá möguleiki að geta sett músina yfir tölur í þingskjali og séð strax að þar er dómur, að sjá tilvísun í málsgrein í einhverri grein og sjá þá strax textann sem þar er að finna og því um líkt. Þetta sparar tíma. Ég veit að reyndir þingmenn, sem sitja hér í þessum sal, eru vanir því að fletta mjög hratt fram og til baka í slíkum gögnum, en ég held að jafnvel þeir hefðu gagn af því að gera það enn hraðar. Síðast en ekki síst held ég að þetta gæti komið almenningi vel. Þegar almenningur, eða stofnanir úti í samfélaginu, ætlar að kynna sér eitthvert þingmál þarf hann kannski ekki að tileinka sér lögfræði eða vinnulag Alþingis til að kynna sér tiltekið mál.

Eitt besta dæmið sem ég veit um er útlendingalögin, risastórt mál. Þar hefði til dæmis verið mjög gott að geta tengt með einföldum hætti nýju greinarnar í frumvarpinu við gömlu greinarnar í gildandi lögum og borið þær saman; ef þetta væri allt sett fram á tölvutæku sniði þá væri það tiltölulega einfalt. Þegar kemur að breytingartillögunum hefði sömuleiðis verið hægt að búa til hugbúnað, frekar auðveldlega, sem útbyggi einfaldlega svokallað „track changes-skjal“ eins og við notum stundum, sem er skjal sem sýnir breytingar sem lagðar eru til í breytingartillögu. Ég fór sjálfur að vinna við þetta að einhverju leyti, ætlaði að vera agalega skipulagður; útbjó skjal til að merkja hvaða breyting ætti við hvaða grein og þetta tók óheyrilegan tíma. Ég var ekki kominn langt þegar ég áttaði mig á því að ég hefði hreinlega ekki tíma í þetta. Ég hefði viljað hafa tíma í þetta. Mér finnst ekki að ég hefði átt að þurfa að eyða tíma í þetta né tíma ritara míns, né manneskju yfir höfuð. Þetta er eitthvað sem tölvur eiga að gera. Tölvur eru til að leysa nákvæmlega svona vandamál. Það er mjög erfitt að láta tölvu leysa þetta vandamál fyrir okkur hér í dag einfaldlega vegna þess að gögnin eru ekki sett fram á því sniði að þau henti vel til þess.

Nú ætla ég ekki að hafa þessa ræðu miklu lengri, þótt mér sýnist alveg nægur tími, til að hv. nefnd skili því máli sem við ætlum að ræða hér eftir smástund. En ég vil að lokum þakka Alþingi og tölvudeild Alþingis fyrir þau gögn sem þó eru þegar birt. Það er ekkert skrýtið að þetta hafi ekki þegar verið gert. Það er ekki skrýtið, þetta er frekar umfangsmikið verkefni, enda leggjum við til í nefndinni að þessum hópi verði gefinn aðeins meiri tími en áður var áætlað. Það er vegna þess að þetta getur orðið svolítið stórt verk, sérstaklega að breyta gögnum sem eru til staðar, öllu heldur að búa til tölvutækar útgáfur af því. Þetta er því verkefni sem er kannski ekki hlaupið að en því mikilvægara að hefja það með skipulögðum hætti. Þau gögn sem þó eru birt þegar, sem eru hliðargögn málanna, þ.e. nöfn mála, umsagnir og flutningsmenn, á hvaða nefndarfundum málin eru tekin fyrir, hvaða nefndir eru til, hverjir eru í þeim nefndum og á hvaða tímum — hliðargögn af þessu tagi eru sett fram með ágætum hætti. Það er að vísu vinna sem er enn í gangi, en ég vil hrósa tölvudeild Alþingis sérstaklega fyrir þá framsetningu, því að ég tel hana vera mjög í takti við hugsunina í þessari tillögu.

Ég vona að ég hafi varpað meira ljósi á málið en minna. Ég hlakka til að sjá hvort okkur takist að afgreiða þetta mál. Þá hlakka ég sérstaklega til að sjá hvernig tækifærin verða nýtt í framtíðinni verði þessi tillaga raungerð.