145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

undirbúningur að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma.

114. mál
[20:54]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fjarveru framsögumanns sem efnahags- og viðskiptanefnd valdi, hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, formanns nefndarinnar, sem er önnum kafinn eins og hv. þingmönnum er kunnugt ásamt með öðrum nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd við skoðun á máli sem tengist gjaldeyrishaftalöggjöfinni, þá hleyp ég hér í skarðið, enda var ég á fundi nefndarinnar sem afgreiddi viðkomandi þingsályktunartillögu frá sér með nefndaráliti sem ég ætla að gera grein fyrir, á þskj. 1434.

Hér er um að ræða afgreiðslu á tillögu til þingsályktunar um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma. Flutningsmenn þeirrar tillögu eru sá sem hér stendur, hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Oddný G. Harðardóttir með mér. Í þessu tilviki er um að ræða endurflutt mál frá fyrra þingi, þannig að efnahags- og viðskiptanefnd var því vel kunnug og hefur í viðbót fengið umsagnir á nýjan leik frá Persónuvernd, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands, en á fyrra þingi var málið sent út til umsagnar. Þá bárust umsagnir frá Byggðastofnun, Háskólanum í Reykjavík, Reykjavíkurborg, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands. Almennt voru umsagnir jákvæðar í garð tillögunnar, eins og segir í nefndarálitinu.

Markmiðið er að stuðla að því að aflað verði með skipulegum og haldbærum hætti gögnum sem nauðsynleg eru til að leggja grunn og skapa forsendur fyrir þjóðhagsáætlanagerð til langs tíma fyrir íslenskt samfélag og að unnið verði að gerð slíkra áætlana og þeim beitt við stefnumótun í samfélagsmálum.

Nefndin tekur undir það að vandaðar langtímaáætlanir geta haft mikilvæga þýðingu fyrir hagstjórn og aðra ákvarðanatöku. Gerð og beiting langtímaáætlana um þjóðarhag felur í sér viðleitni til að vinna gegn skammtímahugsun, hvatvísi og ábyrgðarleysi í stjórnmálum samtímans.

Þá var einnig á það lögð áhersla af hálfu nefndarinnar að langtímaáætlanir á borð við þessa nýtist ekki aðeins stjórnmálamönnum og embættismönnum heldur og stjórnendum fyrirtækja í einkarekstri, fræðimönnum af ýmsu tagi, fjölmiðlafólki og öllum almenningi. Það er því mat nefndarinnar að slík áætlanagerð sé til þess fallin að styrkja og efla lýðræðislega ákvarðanatöku á mörgum mikilvægum sviðum.

Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita, þar sem mælt er með samþykkt tillögunnar, hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, Willum Þór Þórsson, Steingrímur J. Sigfússon, Valgerður Bjarnadóttir og Guðmundur Steingrímsson.

Hv. þingmenn Sigríður Á. Andersen, Vilhjálmur Bjarnason og Brynjar Níelsson rita undir nefndarálitið með fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég vil svo segja frá eigin brjósti, af því að mér er málið skylt og til þess að spara tíma og ferðir í ræðustólinn, að ég þakka fyrst og fremst efnahags- og viðskiptanefnd fyrir afgreiðslu þessarar tillögu. Það er mér ánægjuefni að hún fái afgreiðslu í lok þessa þings og áður en kjörtímabilinu lýkur. Ég hef persónulega lengi verið áhugasamur um vinnu af þessu tagi og hef hreyft við því á þingi, ekki aðeins með flutningi þessarar tillögu í tvígang heldur fyrr á árum með tillöguflutningi og umræðum um hluti eins og kynslóðareikninga og fleira í þeim dúr sem fellur í sama farveg, að gera tilraunir til þess með skipulegum hætti að sjá langt fram í tímann og takast á við það. Aðrar þjóðir gera þetta kannski mun skipulegar en við, þótt vissulega sé ýmislegt gert á afmörkuðum sviðum hjá okkur og ný lög um opinber fjármál vísa nokkuð í þessa átt þar sem gert er ráð fyrir því að ekki bara fjármálaráðuneytið í sinni fjárhagsáætlanagerð heldur og fagráðuneyti horfi einhver ár fram í tímann þegar þau reyna að kortleggja þróun og þarfir á málaflokkum sínum. Það sem vantar upp á er að fella þetta saman þannig að við höfum hina stóru þjóðhagsþróunarmynd fyrir framan okkur og reynum í fyrsta lagi sjá fyrir okkur hvernig sé líklegt að hún verði, reynum í öðru lagi að velta fyrir okkur og meta hvort við viljum reyna að hafa áhrif á það og hvað þurfi þá til þess og vera sem best á þann hátt undir framtíðina búin.

Þetta tengist líka á margan hátt grunnhugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og þá sérstaklega í þeim skilningi að engin kynslóð gangi svo á tækifæri og möguleika annarrar að þeir séu skertir. Þetta þarf þar af leiðandi að hafa í huga þegar langtímaáætlanagerð fyrir þjóðfélögin er unnin.

Hér er að sjálfsögðu ekki verið að finna upp hjólið. Það er getið um það í greinargerð að bæði nú nýlega og áður hafa menn að einhverju leyti unnið á þessum forsendum. Það má nefna McKinsey-skýrsluna sem kortlagði stöðuna í íslensku samfélagi og horfði fram í tímann. Í greinargerð er einnig rifjað upp hið merka frumkvæði sem þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, hafði af slíkri vinnu á níunda áratugnum. Hann setti á fót svokallaða framkvæmdanefnd um framtíðarkönnun og út úr því starfi komu ágætisrit undir nafninu Gróandi þjóðlíf þar sem t.d. var fjallað um mannfjöldaþróun, heilbrigði, umhverfi og framtíðarsýn æskufólks og horft fram yfir aldamótin, þannig að þar rýndu menn einn og hálfan áratug eða svo fram í tímann. Í því starfi kom líka út rit um heilbrigðismál, sem er býsna áhugavert að lesa af því að margt af því er fróðlegt að skoða í ljósi þróunarinnar núna einum þremur áratugum síðar.

En hér er sem sagt lagt til að þessi mál verði sett í farveg, að forsætisráðherra hafi yfirumsjón með að skipa verkefnisstjórn til undirbúnings og forsætisráðherra og fjármálaráðherra vinni saman að mati á verkefninu, á kostnaði og leggi síðan þá hluti aftur fyrir þingið. Það er í sjálfu sér ekki verið að leggja til að taka endanlegar ákvarðanir heldur setja málið í þennan undirbúningsfarveg og vanda það allt saman vel. Þingið kæmi svo aftur að málinu þegar menn væru komnir með skýra mynd á það hvernig þessu yrði best fyrir komið og hvað í því væri falið og hvaða, eftir atvikum, fjármunir þyrftu að fylgja með, þannig að þeim aðila sem yrði falið að annast um þetta og bera á því ábyrgð væri svo búið það starfsumhverfi sem þyrfti til að þetta gæti tekist vel.

Ég endurtek þakkir mínar til efnahags- og viðskiptanefndar fyrir afgreiðslu málsins og vona að hér sé lagður grunnur að starfi sem gagnist okkur um ókomin ár.