145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

minning tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar.

44. mál
[21:15]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gæti verið skemmtilegt að spjalla fram eftir nóttu um inntakið í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Þær hafa að geyma mikinn menningararf sem er, eins og þingmaðurinn augljóslega hefur skilning á, ekki bara sögulegur fróðleikur með skáldlegu ívafi heldur líka vitnisburður um hugarþel þjóðarinnar og viðfangsefni hennar í gegnum tíðina. Útilegumannasögurnar, tröllasögurnar, vættasögurnar allar, eru óskasögur þjóðarinnar, óskadraumur hennar um betri tíð, um bæinn í dalnum, hina grænu haga og hið feita fé í dalnum uppi á hálendinu sem enginn sér. Huldufólkssögurnar eru oft og tíðum ástardraumar ungs fólks. Síðan er það uppeldisgildi þessara sagna sem kenna okkur hvernig við eigum að koma fram við hvert annað. Það má segja að fyrsta umhverfisverndartilskipunin birtist í þemanu um að ekki megi slá álfhólinn t.d. og ekki raska umhverfinu í kringum bústaði vætta. Þannig eru þessar sögur á sinn hátt dulbúin kennslustund fyrir lítt lærða alþýðu á þeim tíma og þess vegna eru þær líka svo dýrmætur gimsteinn og dýrmætur vitnisburður um lífsbaráttu þjóðarinnar frá upphafi.