145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

minning tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar.

44. mál
[21:16]
Horfa

Flm. (Valgerður Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá innsýn sem hún gefur okkur í þessi fræði. Ég vil bæta við að þjóðsögur og ævintýri gegndu líka ákveðnu uppeldishlutverki öðru en því sem ég nefndi áðan vegna þess að óttinn og spennan sem oft og tíðum fólst í þessum sögum, myrkrið og tröllin og vættirnar allar saman, losaði líka um óttann hjá ungviðinu sem sat andaktugt og hlýddi á sér eldra fólk lesa þessar sögur og fann hvernig spennan í rauninni fór út um blóðið og líkaminn allur undirlagður af því. Síðan þegar þessu var lokið hafði átt sér stað spennulosun hjá áheyrandanum eða lesandanum. Þjóðsögurnar okkar höfðu margháttað uppeldisgildi og þær fólu líka í sér fegurð og yndisleika og þær fólu í sér hrylling og þær fólu í sér umhverfisvernd eins og hv. þingmaður kom inn á, hvatann til umhverfisverndar. Þjóðsögurnar okkar og erlendar þjóðsögur eru sannkallaðir gimsteinar. Við megum ekki láta þessar sagnir deyja út með okkar kynslóð, við þurfum að halda þeim lifandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)