145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

tekjuskattur.

655. mál
[21:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Á þessu góða máli er bara einn ljóður. Hv. þingmaður hefði með tilliti til mögulegrar samþykktar átt að fá á bak við það frumvarp alla þá reynslubolta sem hér í þessum sölum sitja og hafa migið í saltan sjó. Til dæmis hefði hann geta fengið í lið með sér hæstv. heilbrigðisráðherra sem er þekktur sjómaður að fornu, fyrir nú utan 4. þm. Reykv. n. sem hefur verið á sjó frá öllum landshornum og jafnvel utan landsins. Með slíka menn á bak við sig, sem skilja og hafa deilt kjörum sjómanna, hefði hann hugsanlega átt möguleika á því að fá frumvarpið samþykkt.

Ég verð hins vegar að segja að það var eins og hv. þingmaður hefði þegar gefist upp á því að koma málinu til endanlegrar samþykktar vegna þess að hann fór að tala um aðra hluti sem höfðu gerst í dag sem væru kannski þess eðlis að það mætti líta á þá sem ákveðið fagnaðarefni fyrir sjómannastéttina.

Nú er rétt að greina honum frá því að ég studdi það mál, samsköttun hjóna, og braut mig frá stefnu míns flokks í þeim efnum, akkúrat vegna þess að … (Gripið fram í: Ásamt Möller.) — ásamt Kristjáni L. Möller og reyndar má segja að við höfum líka reynt að gera gott gagnvart hæstv. heilbrigðisráðherra í ýmsum málum sem honum tókst ekki fyrir eigin vélarafli að stýra til hafnar. En (Gripið fram í.) við tveir, ég og hv. þm. Kristján L. Möller, studdum breytinguna sem meiri hluti nefndarinnar var með gagnvart samsköttun hjóna einmitt út frá þeim röksemdum sem hv. þingmaður var með áðan gagnvart sjómönnum. Það var fyrst og fremst það sem gerði það að verkum að mér fannst fullkomlega eðlilegt að samþykkja það.

Hv. þingmaður hefur rætt um að menn séu byrjaðir að fagna sjómannadeginum. Þá kannski í lokin, og það er tilefni ferðalags míns hingað, langar mig að spyrja hv. þingmann: Ætlar hann að byrja í kvöld eða á morgun að fagna sjómannadeginum?