145. löggjafarþing — 127. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[22:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð styðjum málið. Auðvitað hefur verið kallað eftir löggjöf af þessu tagi um nokkurt skeið og þörfin fyrir svona varúðartæki er augljós, bæði í því innflæði sem er að gerast núna og eins miðað við það sem reynslan kenndi þjóðinni í aðdraganda hrunsins þar sem gott hefði verið að hafa stjórntæki af þessu tagi.

Ég lít svo á að þessu sé ekki endilega rétt lýst sem skrefi í afnámi hafta, heldur glittir í veruleikann eins og hann verður eftir að höftum verður aflétt. Þetta litla krónuhagkerfi hefur tilhneigingu til að ofhitna og vextir eru oft háir. Það eru miklir hvatar til vaxtamunarviðskipta sem getur leitt okkur í ýmsar efnahagslegar ógöngur og því þarf varúðartæki af þessum toga.

Það er mjög mikilvægt að árétta að þetta á ekki að bitna á eðlilegum fjárfestingum til langs tíma í íslensku atvinnulífi heldur á spákaupmennsku. Í því ljósi (Forseti hringir.) styðjum við málið. Svo vonar maður að einhvern tímann verði vextir lágir í þessu landi sem eru auðvitað rót vandans.