145. löggjafarþing — 127. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[22:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég styð þetta mál og tók þátt í afgreiðslu efnahags- og viðskiptanefndar á því fyrr í kvöld. Hér er um að ræða mikilvægt mál sem er óhjákvæmilegt í ljósi aðstæðna eins og fram hefur komið. Sumir þættir þess eru í beinum tengslum við aðgerðina sem við köllum einu nafni afnám hafta, en auðvitað er varúðartækið sem er kannski meginefni frumvarpsins víðtækara en svo. Tilefni og aðdragandi þessa máls stendur í nánum tengslum við þá merku aðgerð sem nú stendur yfir og hefur gengið vel og lofar góðu, afnám hafta, sem er gríðarlega mikilvægt mál fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf.

Í þessu efni þarf að hugsa vel fyrir því hvaða valdheimildir opinberum stofnunum eru gefnar. Það var tekið fyrir í starfi nefndarinnar. Mitt mat er að ekki sé gengið lengra í þessu frumvarpi en nauðsynlegt er og heimilt í þeim efnum, en auðvitað ber alltaf að gæta varúðar þegar reglusetningarvald (Forseti hringir.) er framselt til stjórnvalda.