145. löggjafarþing — 128. fundur,  2. júní 2016.

þingfrestun.

[22:37]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Háttvirtir alþingismenn. Það er vor í lofti og nú er komið að lokum þessa vorþings. 145. löggjafarþingi lýkur á hinn bóginn ekki þar með. Eftir að ljóst varð að stefnt yrði að kosningum í haust endurskoðaði forsætisnefnd starfsáætlun Alþingis og starfstími þingsins lengdist nokkuð þetta vorið. Við munum síðan koma aftur saman til nefndafunda og þingfunda í ágústmánuði, eins og okkur er öllum kunnugt. Þingfundir eru orðnir 128 og þingfundadagar 108. Þá hafa fastanefndir þingsins haldið 504 fundi. Þingfundir, umræður og atkvæðagreiðslur hafa staðið í röskar 630 klukkustundir frá því að þing kom saman í haust.

Þegar litið er yfir störf Alþingis á þessu þingi, 145. löggjafarþingi, var þingið framan af að mörgu leyti býsna sviptingasamt og átök einkenndu fyrri hluta þess. Það er hins vegar ánægjulegt að síðustu vikurnar hafa þingstörfin gengið sérlega vel. Umræður hafa vissulega oft verið nokkuð langar en að sama skapi hafa þær verið málefnalegar. Fyrir okkur sem unnum heilbrigðum og öflugum stjórnmálaumræðum hefur því verið ánægjulegt að fylgjast með þingfundum síðustu vikur og mánuði. Mikið og gott starf hefur verið unnið í nefndum þingsins þar sem mörg fyrirferðarmikil og flókin mál hafa verið til meðferðar og úrlausnar.

Alþingi hefur á þessum vetri tekið til meðferðar ýmis stór mál og leitt til lykta með farsælum hætti. Væntanlega eru okkur flestum efst í huga tvö lagafrumvörp sem lúta að afléttingu gjaldeyrishafta, auk þess máls sem við afgreiddum rétt í þessu, fyrr á þessum fundi. Þau mál einkenndust af vönduðum undirbúningi, vasklegri vinnu þingnefndarinnar sem þar kom að verki og ábyrgri málsmeðferð og góðri samvinnu hér á Alþingi þar sem allir lögðu sig fram. Fyrir það eiga þingmenn mikið hrós skilið.

Alþingi hefur haft mörg önnur stór mál á sinni könnu á þessu þingi sem hafa kallað á mikla vinnu. Oft hefur hún leitt til gagngerðra breytinga á málum í meðferð nefnda. Sú vinna er til marks um styrk Alþingis og það góða starf sem unnið er í nefndum þess; starf sem vekur ekki alltaf athygli í opinberri umræðu um starfsemi Alþingis. Í þessu birtast eiginleikar fulltrúalýðræðisins í hnotskurn. Leitað er eftir áliti fjölda fólks, almannasamtaka og hagsmunaaðila. Fram koma ábendingar, færður er fram rökstuðningur og lagðar fram tillögur sem þingmenn vega og meta og geta leitt til breytinga á framlögðu þingmáli. Stundum geta slíkar breytingar orðið mjög veigamiklar, eins og dæmin sanna, meðal annars frá þessum vetri. Í þessu felst styrkur en ekki veikleiki. Þær breytingar sem oft og tíðum verða á málum í meðferð nefndanna undirstrika nefnilega sjálfstæði Alþingis, getu þess og vilja til þess að vega og meta rök og gagnrök. Þessi staðreynd rímar hins vegar illa við margt af því sem stundum er látið á okkur dynja í neikvæðri síbyljunni um þingið og þingstörfin. Það er athyglisvert og nauðsynlegt að árétta að í þessum efnum sker Alþingi sig úr í samanburði við önnur þjóðþing í Evrópu, þar sem fátítt er að gerðar séu jafn miklar breytingar á frumvörpum, stjórnarfrumvörpum jafnt og öðrum, og alsiða er hér.

Það er til marks um þann mikla samstarfsvilja sem ríkt hefur nú á vormánuðum hér á Alþingi að alls hafa verið sett 35 lög frá 12. maí, þar af 19 í dag. Frá þingbyrjun í haust hafa 79 mál orðið að lögum, þar af 63 stjórnarfrumvörp, 14 frumvörp frá nefndum eða meiri hluta nefndar og tvö frá þingmönnum. Afgreiddar þingsályktanir frá ríkisstjórn eru 28, sjö frá nefnd eða meiri hluta nefndar og 19 þingsályktanir frá þingmönnum.

Þessar tölur undirstrika að hlutur þingmannamála, þ.e. þingmála sem þingmenn en ekki ríkisstjórn hafa flutt, er óvenjumikill. Lögð hafa verið fram 234 mál þingmanna, þar með talin nokkur frá nefndum, þingsályktunartillögur og frumvörp. Mælt hefur verið fyrir 84 þeirra og nú við dagslok hafa 42 þeirra þingmála sem lögð eru fram af þingmönnum, auk þingnefndamála, hlotið afgreiðslu hér á Alþingi. Þetta er óvenjumikið, en er í samræmi við þá skýru þróun á undanförnum árum að þingmannamál hafa hlotið aukið vægi í störfum Alþingis.

Við lok þessa hluta þinghaldsins vil ég þakka hv. þingmönnum fyrir samstarfið. Ég færi varaforsetum þakkir fyrir samvinnuna. Þá vil ég sérstaklega nefna að ég er afar þakklátur bæði formönnum stjórnmálaflokkanna og þingflokkanna fyrir þeirra ómetanlega framlag við að stýra gangi mála þannig að okkur tókst að ljúka hér störfum fyrir sumarhlé þingsins með fullum sóma fyrir Alþingi.

Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég góða og mikla aðstoð eins og endranær.

Ég óska alþingismönnum, starfsmönnum þingsins og raunar landsmönnum öllum ánægjulegra sumardaga. Ég vænti þess að við hittumst öll heil þegar Alþingi kemur saman til framhaldsfunda um miðjan ágústmánuð.