145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns, Jóns Skaftasonar.

[15:03]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Jón Skaftason, fyrrverandi alþingismaður, lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi föstudaginn 3. júní sl. Hann var alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjaneskjördæmi á árunum 1959–1978. Hann var á nítugasta aldursári er hann lést.

Jón Skaftason var fæddur á Akureyri 25. nóvember 1926, en ólst upp á Siglufirði með foreldrum sínum þar, Skafta Stefánssyni, útgerðarmanni og síldarsaltanda á Nöf, og konu hans, Helgu Sigurlínu Jónsdóttur húsmóður.

Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1947 og lagaprófi frá Háskóla Íslands 1951. Réttindi héraðsdómslögmanns fékk hann 1955 og rétt til málflutnings við Hæstarétt 1961.

Að loknu háskólaprófi var Jón við ýmis störf á Siglufirði hjá föður sínum, nafntoguðum athafnamanni, sem rak ásamt öðrum eitt umsvifamesta síldarplan landsins um árabil. Jón varð fulltrúi hjá ríkisskattanefnd 1952 og síðar í fjármálaráðuneyti 1955–1961. Samhliða þessum störfum rak hann lögfræðiskrifstofu í Reykjavík, Kópavogi og Keflavík á árunum 1955–1960.

Framsóknarflokkurinn vann mjög að því á þessum árum að efla stöðu sína í þéttbýlinu sunnanlands. Jón Skaftason var þá valinn í forustusveit flokksins í nágrenni höfuðstaðarins, varð fyrst bæjarfulltrúi flokksins í Kópavogi 1958 og ári síðar í efsta sæti flokksins í hinu nýstofnaða Reykjaneskjördæmi. Hann hlaut góða kosningu þá og varð forvígismaður flokksins í kjördæminu í tvo áratugi, þingmaður fram að kosningum 1978, er urðu Framsóknarflokknum afar erfiðar. Hvarf Jón þá af þingi og sneri sér að öðrum störfum. Varð hann fyrst deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu en síðar yfirborgarfógeti í Reykjavík og sýslumaður eftir breytingar á umboðsstjórn ríkisins 1992. Það kom því í hans hlut að móta sýslumannsembættið. Sýslumaður Reykvíkinga var hann til starfsloka 1994.

Jón Skaftason gegndi á starfsferli sínum, bæði sem alþingismaður og embættismaður, margvíslegum nefndastörfum, einkum á sviði sjávarútvegs. Hann tók virkan þátt í alþjóðastarfi Alþingis, sat lengi í Norðurlandaráði og fleiri alþjóðanefndum, og var í bankaráði Seðlabankans 1975–1980 og formaður þess frá 1977.  

Jón Skaftason var ungur að árum er hann settist á þing en var fyrstu þrjú kjörtímabilin, 12 ár, í stjórnarandstöðu. Hann átti ekki alltaf samleið með forustu síns flokks en naut þrátt fyrir það virðingar flokksmanna fyrir drengskap og festu í stjórnmálum. Framganga hans og fas þótti gefa flokki hans gott yfirbragð hér í þéttbýlinu. Hann var ötull þingmaður, starfsamur og skipulegur, og þótti góður og tryggur í samstarfi. Hann lét mest til sín taka í sjávarútvegsmálum, og naut þar reynslu sinnar frá Siglufjarðarárunum, og beitti sér á sviði nýsköpunar og rannsókna meðan hann sat á Alþingi. Sem embættismaður varð Jón farsæll og hélt góðri reglu á verkefnum sinna embætta.

Ég bið þingheim að minnast Jóns Skaftasonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]