145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[15:18]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að spyrja neitt efnislega út í málið heldur af hverju það þarf að koma inn svona seint. Það er boðað til þingfundar klukkan þrjú eftir hádegi og við fáum frumvarpið í hendurnar þegar klukkuna vantar sjö mínútur í þrjú. Hvernig stóð á því að við, þingið, höfðum í raun og veru engin tök á því að lesa í gegnum þetta níu blaðsíðna frumvarp og reyna að átta okkur á því áður en 1. umr. byrjaði? Er ekki lágmark að maður hafi tíma til kynna sér efni frumvarpsins áður en 1. umr. um það fer fram? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stóð á því að ekki var hægt að útbýta málinu aðeins fyrr eða senda þingmönnum það í trúnaði svo að við gætum alla vega verið undirbúin? Þetta er ekki neitt smámál. Verið er að setja lög á borgaraleg réttindi flugumferðarstjóra, sem eru að geta farið í verkfall. Mér finnst það alveg þess virði að gefa okkur þingmönnum smá tíma til að renna í gegnum frumvarpið. Sjö mínútur er einfaldlega ekki nógu mikið fyrir níu blaðsíðna frumvarp, svo mikið er víst.