145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[15:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hér hefur komið fram í andsvörum þá er það nú orðinn plagsiður þessarar ríkisstjórnar að beita lögum á kjaradeilur; slík tíðni hefur aldrei sést á lýðveldistímanum eins og á þessu kjörtímabili. Ég held að ekki verði undan því vikist að gjalda varhuga við því að stjórnvöld fari ítrekað inn í kjaradeilur með þessum hætti. Auðvitað valda aðgerðir af þessu tagi truflun gagnvart þriðja aðila, til þess er leikurinn gerður að skapa þrýsting.

En mig langar í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra: Kynnti ráðherra sér stöðuna í kjaradeilunni með þeim hætti að hún ætti fundi með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins annars vegar og hins vegar með fulltrúum frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra? Er ráðherranum ljóst hvað nákvæmlega ber í milli aðila? Og hafa báðir aðilar fengið fullan aðgang að því að rökstyðja sitt mál áður en ákvörðun var tekin um það að fara með lagasetningu á stöðuna í kjaradeilunni?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að hún vísar í framsögu, og líka í greinargerð með málinu, ítrekað í ótvíræða almannahagsmuni; en hér vegast á gríðarlega stór og mikilvæg meginsjónarmið, þ.e. verkfallsrétturinn annars vegar andspænis almannahagsmununum: Hvernig fór þetta hagsmunamat fram? Hvaða sjónarmið voru það sem riðu baggamuninn í huga hæstv. ráðherra og stjórnvalda í því að hér væri tilefni til þess að fara gegn verkfallsréttinum með lagasetningu?