145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[15:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum svörin. Það liggur sem sé fyrir að aðilar komu á fund ráðuneytisstjóra og embættismanna í ráðuneytinu á fund þar sem hæstv. ráðherra var ekki viðstaddur. Því vil ég spyrja ráðherrann hvort hún telji að öllum hennar spurningum hafi verið svarað með því að vera ekki sjálf milliliðalaust á fundi með deiluaðilum þar sem um er að ræða ekki bara lögfræðilegt mat, efnahagslegt mat, mat á almannahagsmunum andspænis þeim hagsmunum sem lúta að verkfallsréttinum, heldur ekki síst pólitískt mat og pólitísk ábyrgð sem hæstv. ráðherra ber þegar hún sem innanríkisráðherra kemur með þetta mál til umfjöllunar á Alþingi.

Síðan vil ég biðja hæstv. ráðherra að bregðast við þeirri vangaveltu þegar hún telur að hér sé um svo ríka almannahagsmuni að ræða að um talsverð áhrif og töluvert tjón sé að ræða og mikið í húfi. Þá vil ég spyrja hana um það í hverju þessi miklu áhrif felist. Er það ekki rétt skilið hjá mér að áhrifin felist fyrst og fremst í töfum? Erum við ekki fyrst og fremst að tala um tafir? Erum við að tala um tjón sem sé óbærilegt, sem sé óafturkallanlegt? Og hvernig vill hæstv. ráðherra bregðast við því mati mínu að það sé hastarlegt að grípa inn í aðgerðir með þeim hætti sem hér er lagt til og beri vott um óþol?