145. löggjafarþing — 130. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[21:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál gæti hafa litið öðruvísi út ef deginum hefði verið eytt í að tala við verkalýðshreyfinguna og reyna að styrkja grundvöll heildarsamkomulags á vinnumarkaði. Það var ekki gert og er það táknrænt fyrir störf þessarar ríkisstjórnar að sama dag og sett eru lög á kjaradeilu flugumferðarstjóra skuli ríkisstjórnin skilja verkalýðshreyfinguna eftir á fundi með því að funda í þjóðhagsráði án hennar þrátt fyrir beiðni verkalýðshreyfingarinnar um annað. Það eina sem þar er beðið um er að heildarsamkomulagið eigi ekki eingöngu að snúast um að launamenn gefi eftir, heldur verði tekið tillit til félagslegra þátta og ráðist í félagslegar úrbætur samhliða. Það er það eina sem verið er að biðja um. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn ætlar að virða að vettugi þá kröfu á sama degi og hún setur lög á kjaradeilur. Þetta verður ekki til þess að skapa frið á vinnumarkaði.