145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

skuldaleiðrétting og lækkun vaxtabóta.

[15:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í blaðinu Fréttatímanum var á dögunum fjallað um stöðu fólks sem fékk niðurgreiðslu lána í gegnum hina svokölluðu leiðréttingu. Þar eru nefnd raunveruleg dæmi um hvernig fjárhagur fólks breyttist til hins verra eftir að það fékk leiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Samhliða skuldaleiðréttingunni svokölluðu lækkuðu stjórnvöld vaxtabætur, létu barnabætur tapa verðgildi sínu og gerðu tekjuskerðingar bótanna þar að auki grimmari. 9.000 fjölskyldur sem fengu vaxtabætur í fyrra fá þær ekki í ár og 9.000 færri foreldrar fá barnabætur í ár en árið 2014.

Aðeins hinir tekjuhærri og þeir sem skulda mest koma betur út úr skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Það fólk sem áður hafði fallið innan skilgreiningar um vaxtabætur sér afborganir sínar lækka lítillega en vaxtabætur lækka miklu meira. Fólk situr því eftir með mun minna ráðstöfunarfé en áður og það lendir í vanda. Hinir efnaminni borga sjálfir fyrir leiðréttinguna svokölluðu en ekki kröfuhafar föllnu bankanna eins og lofað var.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hæstv. ráðherra hafi gert sér grein fyrir þessum áhrifum ákvarðana ríkisstjórnarinnar þegar þær voru teknar, eða er um mistök að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar sem hæstv. forsætisráðherra telur að þurfi að leiðrétta?