145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

skuldaleiðrétting og lækkun vaxtabóta.

[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar skuli viðhalda þeim ranghugmyndum sem hér hafa verið uppi. Skuldaleiðréttingin var almenn aðgerð sem fól í sér að stærsti hluti aðgerðarinnar styrkti stöðu ungs fólks og þeirra sem minnst áttu, akkúrat hið gagnstæða. Á móti hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skrifað langar skýrslur um það gamla vaxtabótafyrirkomulag sem hér var, að það hafi teygt sig allt of hátt og verið að renna í vasa þeirra sem ekki á því þurftu að halda. Hér er öllu snúið á haus.

Þessi aðgerð, skuldaleiðréttingin, tókst afburðavel. Eignir fólks í þess eigin húsnæði hafa vaxið um 45 prósentustig, þ.e. 1/3, á starfstíma ríkisstjórnarinnar og eru skuldirnar núna með því lægsta í hinum vestræna heimi. Hver vildi ekki frekar vera í þeim sporum að eiga stærri hlut í sínu eigin húsnæði og borga minna til bankanna en að þurfa að (Forseti hringir.) treysta á að ríkið komi með vaxtabætur til að viðhalda þeirri snöru sem bankakerfið og kerfið sem slíkt býr við hefur búið til?