145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

áform um einkasjúkrahús.

[15:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í hádeginu mátti heyra fréttir af því að áformum um nýtt einkasjúkrahús í Mosfellsbæ væri slegið á frest og talsmaður erlendra fjárfesta biði eftir tillögum frá íslenskum stjórnvöldum um breytingar á þeim áformum og hann biði eftir að ná samtali við hæstv. heilbrigðisráðherra. Í raun má segja að þær fréttir allar sem við fengum að heyra í sumar af áhuga innlendra og erlendra fjárfesta á að reisa nýtt einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, fjárfesting upp á 50 milljarða, hafi auðvitað vakið mikið umtal og margar spurningar, sérstaklega þegar í ljós kom að þarna átti að gera efnameira fólki kleift að borga sig í rauninni inn til að fá tiltekna þjónustu fram hjá hinu íslenska heilbrigðiskerfi. Strax heyrðum við varnaðarorð frá ýmsum sérfræðingum um að þetta gæti haft veruleg áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi, þetta gæti grafið undan því kerfi sem við höfum byggt hér upp, þarna mundi skapast samkeppni um starfsfólk og þetta væri vísir að tvöföldu kerfi. Í stuttu máli má segja að varnaðarorðin hafi glumið úr öllum áttum og hæstv. heilbrigðisráðherra kom fram og lýsti áhyggjum af þessum áformum.

Það er ekkert í innlendri löggjöf sem kemur í veg fyrir að fjárfestar geti byggt upp starfsemi af þessu tagi og jafnvel ekki sótt um leyfi fyrr en búið er að byggja heilan spítala, eins og þessir fjárfestar lýstu yfir að þeir ætluðu að gera, þeir lýstu því yfir að þeir ætluðu að byggja hér aðstöðu fyrir 50 milljarða og sækja svo um leyfi, sem hefði þá væntanlega verið erfitt að hafna. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Finnst honum eðlilegt að í löggjöfinni séu engar leiðir til að koma í veg fyrir slík áform ef fagaðilar meta þau hættuleg fyrir innlent heilbrigðiskerfi, ef stjórnmálamenn í landinu eru sammála um að þeir vilji ekki byggja upp tvöfalt heilbrigðiskerfi, er þá ekki eðlilegt að það séu einhverjar leiðir í lagaumhverfinu (Forseti hringir.) til að koma í veg fyrir það? Þetta er fyrri spurningin sem mig langar að beina til hæstv. heilbrigðisráðherra.