145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

áform um einkasjúkrahús.

[15:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil ítreka að ég tel mjög mikilvægt að það séu í senn leiðir fyrir stjórnmálin annars vegar og hins vegar fagaðila að hafa áhrif á þessa þróun mála. Það getur ekki verið eðlilegt að svona nokkuð sé ákveðið með einu pennastriki hjá tilteknu sveitarfélagi án þess að fram fari bæði umræða á pólitíska sviðinu á Alþingi og hins vegar meðal fagaðila, þannig að ég fagna því að fyrirhugað sé að fara yfir þetta regluverk.

Hin spurningin sem ég er með og hæstv. ráðherra kom að varðar þessi áform. Hæstv. ráðherra hefur lýst yfir í fjölmiðlum og sagði áðan að hann hefði aldrei fengið kynningu á þessum áformum. Ég vil spyrja í ljósi orða þessa fjárfestis, hann hefur ekki einu sinni fengið — ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi fengið ósk um fund með þessum fjárfestum og hvort ráðherrann hafi í raun einhverjar skýringar á því hvernig svona mál geti gengið (Forseti hringir.) jafn langt og raun ber vitni án þess að ráðherra heilbrigðismála eða önnur heilbrigðisyfirvöld komi í raun nokkuð að málinu.