145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Vinna stjórnarskrárnefndarinnar — nefndin skilaði af sér til forsætisráðuneytisins í sumar — hefur staðið yfir býsna lengi, það er rétt. Þetta er mjög vönduð vinna þar sem niðurstaðan er sú að leggja til ný þrjú ákvæði inn í stjórnarskrá, hluti sem margir hafa talað fyrir að þurfi að koma inn í stjórnarskrána. Ég hef lagt á það áherslu að sú staða sem náðist í nefndinni, að sammælast um að senda þessar þrjár tillögur fyrst út til umsagnar og síðan að afgreiða þær frá sér, vissulega með bókunum frá ólíkum hópum, sé ágætisstaður til að halda áfram með málið. Ég hef talað fyrir því að skynsamlegt sé að málið komi inn til þingsins. Ég hefði talið æskilegast að það yrði borið fram af öllum þeim sem sátu í nefndinni. Ég hef fengið upplýsingar um að svo verði ekki og það hefur líka komið fram í ræðustól Alþingis. Þá held ég að næsta skref okkar sé að setjast yfir það hvort við getum gert það í einhverjum smærri hóp eða þá að forsætisráðherra, sem hefur með málið að gera, leggi það hreinlega fyrir þingið. Ég hef í hyggju að skoða alvarlega að gera það á næstu dögum, ekki síst í ljósi ræðu forseta Íslands við innsetningu í þessum sal fyrr í sumar þar sem hann hvatti þingmenn til að takast á við þetta verkefni, talaði um að áfangasigrar væru góðir og málamiðlanir væru skynsamlegar, sem svo sannarlega eru fyrir hendi í þessum tillögum. Ég býst við að það séu ólíkar skoðanir í öllum þingflokkum á einstökum tillögum, en ég held að það væri mjög áhugavert ef þingið tækist á við þetta á næstu vikum, því að glugginn sem er opinn er opinn núna. Það er býsna langt þangað til (Forseti hringir.) hann opnast aftur ef næsta kjörtímabil verður fjögur ár.