145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

hlutverk LÍN.

[15:39]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka svarið frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Það er að vissu leyti rétt að það eru ákveðnir aðilar sem þurfa að taka hærri lán, enda gefur augaleið að við getum ekki í okkar litla samfélagi kennt allt. Það eru margir sem fara í langt og dýrt nám einfaldlega af því að það er ekki í boði hérna. Ég veit ekki hver skólagjöldin eru í Juilliard en við viljum að fólk mennti sig almennilega í tónlist. Ég veit ekki hver skólagjöldin eru í Harvard eða ef fólk fer í læknisnám í Bandaríkjunum en gjöldin eru há. Með þeim áformum sem hæstv. menntamálaráðherra hefur í frumvarpi sínu er í raun verið að takmarka þessa möguleika. Stundum þurfum við að vera með há námslán af því að það er ekkert annað í stöðunni. Mér finnst mjög slæmt ef það á að þrengja að fólki sem er þessi frávik, sem skipta líka máli fyrir samfélagið, að við séum með fjölbreytta menntun og að fólk hafi aðgengi að henni.