145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[15:43]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að Samfylkingin telur að mikilvægt sé að halda fólki í skuldafjötrum, hafa skuldsetningu heimila eins háa og hægt er og þannig geta komið til hjálpar með því að dæla út vaxtabótum. Við höfum þá skoðun og þá stefnu að mikilvægast sé að fólk eignist sem mest í húsnæði sínu, eigi sem hæst hlutfall í húsnæði sínu, geti greitt niður skuldir sínar eins hratt og hægt er og sitji þar af leiðandi ekki uppi með þá áhættu, því að það geta komið verðbólguskot á Íslandi eins og við þekkjum af sögunni, að það sé betur í stakk búið til að takast á við slík áföll. Þess vegna höfum við lagt upp með að leiðréttingin — sem ég veit að Samfylkingin hefur aldrei getað sætt sig við þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi í bréfi til flokksmanna sinna hvatt flokksmenn til að hugsa að kannski hefðu menn átt að hlusta á tillögur framsóknarmanna um hvernig átti að koma til móts við skuldsetta íbúðareigendur á sínum tíma — það gerðum við. Við stóðum við þau stóru orð. Niðurstaðan er sú að Seðlabankinn hefur vísað til þess að ein stærsta ástæða fyrir því að skuldir heimila hafa lækkað úr 125% af landsframleiðslu niður í 84% á síðasta ári, og fara enn lækkandi, sé m.a. vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Síðan blandar hv. þingmaður nýju úrræði fyrir fólk sem ekki á húsnæði í dag inn í vaxtabótakerfið í dag. Það er akkúrat verið að gera það sama fyrir þennan hóp, það er verið að auðvelda honum að eignast húsnæði, lækka höfuðstól hans, gefa stóran valkost til að taka óverðtryggð lán með skýrum hætti, sem er vel að merkja stærsta skref sem tekið hefur verið á Íslandi til að koma böndum á verðtryggð lán síðan verðtryggingin var sett á 1979.