145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla að vara fólk við. Langflestir í þessum sal eru komnir í kosningahaminn skelfilega þar sem loforðin eru svo óraunveruleg að þeim ber að taka af mikilli varúð.

Mig langar til að rifja upp af hverju við erum hér í dag, af hverju við erum í þinginu í ágúst. Í apríl varð ótrúlegasti sirkus sem ég hef orðið vitni að á minni þingmannstíð. Við sem fórum í gegnum þetta inni í þinghúsinu vorum, ja, ekki beint í áfalli heldur upplifði maður sig meira algjörlega niðurlægðan. Það var niðurlægjandi að fara í gegnum þetta tímabil þar sem öll heimsbyggðin horfði á okkur og hló að okkur. Það var gert viðstöðulaust grín að forsætisráðherra Íslands í heimspressunni og að þjóðinni fyrir að hafa svona forsætisráðherra. Við erum hér út af því. Við erum ekki hérna af því að ríkisstjórnin sé búin að vera frábær. Við erum hér út af þessu og kjörtímabilið var stytt af því að ríkisstjórnin varð hrædd við fólkið sem kom og mótmælti vegna þess að siðferðiskennd þess var misboðið. Það hefur aldrei gerst áður að svona margir Íslendingar hafi komið saman af því að þeim hafi verið fullkomlega misboðið siðferðislega. Það er einstakt í sögu vestrænna lýðræðisríkja.

En við erum hér líka af því að við ætluðum að hafa stutt sumarþing til að ríkisstjórnin fengi tækifæri til að klára einhver þeirra mála sem liggja inni. Við erum ekki hér af því að ríkisstjórnin ætli að koma með 20 ný stór mál. Yfir 50 mál liggja í nefndum og það er alveg sjálfsagt að greiða þeim leið í gegnum Alþingi á eðlilegan hátt. Á eðlilegan hátt þýðir að sum mál sem eru ekki í samkomulagi verði hreinlega ekki afgreidd. Það vita allir, m.a.s. nýgræðingar í pólitík eins og ég, að við þinglok fá ekki allir allt sem þeir vilja. Það veit ríkisstjórnin fullvel þannig að við skulum bara tala mannamál.

Síðan finnst mér skrýtið að hlusta á málflutning þeirra hæstv. ráðherra sem hér tala. Mér finnst svo skrýtið að þeir tali alltaf eins og fjögur ár kjörtímabils séu algjörlega einangruð, eins og þau séu ekki í samhengi við neitt. Það er viðstöðulaust talað um að vinstri stjórnin hafi gert þetta en aldrei talað um ástæðu þess að hér hafi orðið hrun. Það er aldrei talað um stefnurnar sem urðu til þess að hér varð hrun. Nú hefur verið keyrt ansi þétt á þeirri stefnu að hreinlega einkavæða allt. Sem betur fer hefur þessi ríkisstjórn verið einhver verklausasta ríkisstjórn Íslandssögunnar. Sem betur fer, segi ég, og megi þessi ríkisstjórn verða enn verklausari og megi koma sem fæst mál frá henni inn á Alþingi til að við getum klárað þetta kjörtímabil og tekið næsta kjörtímabil á þann veg að það sé í samhengi við framtíðina og fortíðina en ekki í einhverri fjögurra ára endakallsvertíð þar sem teknar eru ákvarðanir inn í framtíðina sem aðrir þurfa að framkvæma og landsmenn lifa eftir.

Ég skora á ríkisstjórnina að vera áfram jafn duglítil og hún hefur verið.