145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem nú er að hrökklast frá völdum vegna vantrausts þjóðarinnar á henni eftir að upp komst um eignir þriggja ráðherra hennar í Panama-skjölunum í aflandseyjum fékk ríkulega vöggugjöf frá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún fékk í hendurnar ríkissjóð sem var að hjarna við eftir nánast gjaldþrot 18 ára valdatíðar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og hún fékk efnahagslegan stöðugleika. Hvernig hefur þessi ríkisstjórn nýtt þessa aðstöðu? Jú, félags- og húsnæðismálaráðherra boðar nú frumvarp um fæðingarorlof og frumvarp um almannatryggingar. Hvert var fyrsta verk félags- og húsnæðismálaráðherra í nýrri ríkisstjórn? Það var að taka samþykkt lög um lengingu á fæðingarorlofinu, henda þeim í ruslið og stytta orlofið að nýju. Nú kemur hún korteri fyrir kosningar og boðar lengingu á því. Það hefði verið hægt að gera strax í stað þess að lækka veiðigjöldin.

Og hvað kemur hún með annað? Almannatryggingafrumvarp, endurvinnslu á frumvarpi sem var lagt inn í þingið fyrir þremur og hálfu ári. Nei, almannatryggingar hafa ekki þróast til samræmis við önnur laun í landinu á þessu kjörtímabili. Ójöfnuðurinn hefur aukist. Nú er komið, korteri fyrir kosningar, með tillögur vinstri stjórnarinnar og sagt: Þetta getur orðið að lögum ef minni hlutinn þvælist ekki fyrir.

Við meiri hlutann á Alþingi hef ég þetta að segja: Alþingi er ekki færiband. Alþingi er ekki stríðsvettvangur. Alþingi er lýðræðislega kjörin löggjafarsamkunda þar sem við þurfum að vanda til verka. Við meðhöndlum almannatryggingakerfið og fæðingarorlofið af virðingu en erum ekki með það sem skiptimynt til að laða til okkar kjósendur í kosningum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)