145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:54]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er, eins og ég kom inn á í máli mínu, algjörlega nauðsynlegt að þegar við ræðum staðreyndir, niðurstöður frá Hagstofunni og öðrum þeim sem gefa okkur upplýsingar, að við viðurkennum þær þegar þær eru réttar. Við getum haft mismunandi sýn á það hvernig þær líta út og hvað þær þýða en við verðum að viðurkenna staðreyndirnar. Ég verð að viðurkenna líka að í því máli sem hér hefur verið rætt hjá flestum hafa menn viðurkennt að það er með fádæmum hversu gott efnahagsástandið er, einstakt og horfur á næstunni til þess að fara í mikla uppbyggingu á innviðum og horfa til þeirrar framtíðar sem við vildum svo gjarnan hafa getað horft til miklu fyrr, ekki hafa þurft að vera í því að taka til eftir efnahagskrísuna og bankahrunið á haustdögum 2008, en við tókum til þessa þrjá mánuði og höfum gert það.

Hér var nefnt að ég hefði ekki minnst á að stýrivextir væru 5,75% og að þeir væru of háir. Ég hugsa að flest okkar hérna inni séu sammála um að þeir séu of háir og að það sé erfitt að útskýra það. Við erum hins vegar með sjálfstæðan seðlabanka og sjálfstæða peningastefnunefnd. Ég býst við að flest hérna inni séu sammála því að það eigi að vera þannig. Verðbólgan í ágústmánuði er hins vegar um 1% og ég nefndi að það hljóti að koma til þess að peningastefnunefndin íhugi hvað sé að gerast þegar verðbólgan verður undir lægri frávikum Seðlabankans.

Það var líka ánægjulegt að heyra í formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um að að hennar mati sé nægur tími til að leggja fram fjölda mála. Ég er sammála. Það er nægur tími til þess að leggja fram ný mál og klára þau.

Ég er líka ánægður með að heyra þann sáttaanda sem kom fram hjá formanni Bjartrar framtíðar um að þingmenn geti verið stoltir af því hvernig þeir unnu í vor og að við getum staðið saman og unnið vel, faglega og af skilvirkni að því að afgreiða mál. Allt rímar þetta við það sem ég held að við þingmenn viljum láta fjalla um okkur og það sem við erum að gera í salnum.

Hins vegar var í nokkrum tilvikum minnst á að jöfnuður hefði versnað. Það var sérstakt umtalsefni að við hefðum verið að skreyta okkur með (Gripið fram í: Ha?) jöfnuði frá árinu 2013. Síðan kom niðurstaðan vegna 2014 og hún er sambærileg og árið 2013, þ.e. jöfnuður er með fádæmum góður á Íslandi og spurning hvort við séum, svo við grípum til samlíkingar íþróttanna sem er okkur mjög töm eftir það sem á undan er gengið í sumar, annaðhvort með gullverðlaun eða silfur eða í það minnsta á palli í samanburði við önnur lönd. Jöfnuður er í góðu standi á Íslandi og er það enn eftir fádæma góða efnahagsstjórn og þau viðbrögð og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til, til að mynda að auka um 55 milljarða til félagsmála í landinu á þessu kjörtímabili.

Svo segja menn að hér hafi ekkert verið gert. Staðreyndin er sú að við erum að skila hér mesta hagnaði sem nokkurn tímann hefur verið á einu ári og það er vegna verka ríkisstjórnarinnar, þeirra stóru verka hvernig við tókum á slitabúum bankanna, kröfuhafanna, og hvernig við höfum stillt ríkisfjármálin af. Það eru gríðarleg tækifæri til uppbyggingar á næstu árum nú þegar og á næstu árum. Við getum farið að skiptast á skoðunum um það og með það getum við síðan farið til kosninga.

Hér inni voru alls konar yfirboð boðuð. Það þyrfti að gera þetta og þyrfti að gera hitt og mönnum væri alveg sama þó að hér (Forseti hringir.) yrði hugsanlega þensla og verðbólga. Það er sú umræða sem við þurfum að taka, hverjir ætla að fara í stórfelldar skattahækkanir á fólk og fyrirtæki. Eða getum við kannski haldið áfram þeim stöðugleika sem við höfum byggt áfram á? Trúverðugleiki er málið. (Forseti hringir.) Trúverðug stefna skiptir máli og stefna sem byggist á árangri sem ríkisstjórnin getur státað af er trúverðug.