145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

loftferðasamningur við Japan.

768. mál
[16:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra, þótt hún hafi verið skamma stund í starfi, er áreiðanlega kunnugt um sögulegan áhuga minn á auknum samskiptum Íslands við Austur- og Suðaustur-Asíu. Þar er Japan framarlega í flokki. Það er ekki langt síðan hið háa Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu frá mér þar sem hvatt er til að gerður verði reki að því að gera fríverslunarsamning við Japan. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé ákaflega mikilvægt fyrir þessi samskipti og fyrir íslenska flugiðnaðinn að hæstv. utanríkisráðherra beiti sér líka fyrir því að ráðist verði í að gera loftferðasamning við Japan. Þar á Framsóknarflokkurinn reyndar mjög glæsilega sögu. Halldór heitinn Ásgrímsson beitti sér fyrir því upp úr aldamótum að gert yrði átak í því efni. Eftir hann síðan þá liggur mjög góður samningur sem fullnægir okkar þörfum gagnvart Kína, gagnvart Makaó og gagnvart Hong Kong. Japan lá eftir vegna þess að Japanar voru þá ákaflega lokaðir gagnvart samskiptum við önnur ríki, þeir eru það nú svo sem enn þá.

Á þá samninga sem gerðir voru hefur hins vegar ekki reynt með þeim hætti sem nútímatækni í flugsamgöngum gefur tilefni til. Það er hins vegar að breytast. Flugflotinn er breytast. Það er verið að taka í notkun langdrægar breiðþotur sem eru þegar komnar inn í flotann sem geta dregið alla leið til Japans og til Kína. Það skiptir því miklu máli fyrir okkur að það takist að bæta Japan við samninginn. Japanar eru sérlega eftirsóknarverðir. Þar er þjóðin farin að ferðast mikið. Hún er vellauðug og hún hefur ferðamáta sem hentar ákaflega vel neti íslensku flugfélaganna, einkum Icelandair. Japanar koma til Evrópu og fara síðan í ferðalög til margra landa, hafa hins vegar áfangastað á einum og sama staðnum. Í dag fara þeir nánast allir til Finnlands. Finnair hefur eiginlega öll tök á þessum markaði. Þangað er næstum því helmingur allra beinna fluga frá Evrópu til Japans.

Ég tel að með þessari breytingu gætum við náð til okkar töluverðu af japanska markaðnum eða þeim hluta japanskra túrista sem ferðast til Evrópu. Til þess þarf hins vegar samninga. Það er flókið að gera samninga. Í dag er það þannig að hinn gamli sáttmáli frá 1944, sem er kenndur við Chicago, heimilar ferð um lofthelgi og að menn taki land í tollflughöfnum en án viðskipta. Það þarf sérstaka samninga bæði fyrir leiguflug og fyrir farþegaflug. Það er þess vegna sem ég hef lagt fram þessa tillögu. Ég tel, sérstaklega í ljósi þess að við erum eina Norðurlandið sem ekki hefur slíkan loftferðasamning, að hæstv. ráðherra ætti með sannfæringarkrafti sínum og elju í tilefni af því að það er sérstakur áfangi núna í samskiptum okkar við Japan, þ.e. 60 ára afmæli stjórnmálasambands, að takast að koma þessu í gegn. Þá get ég þess að í næstu viku kemur hingað (Forseti hringir.) þingmannanefnd frá Japan. Þá held ég að væri hægt að slá eins og tvær, jafnvel þrjár, flugur í einu (Forseti hringir.) höggi ef hæstv. ráðherra sæi sér fært að hitta þá nefnd og taka málið upp við hana.