145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

loftferðasamningur við Japan.

768. mál
[17:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ísland hefur til margra ára kallað eftir umræðu um gerð loftferðasamnings við Japan sem ávallt hefur því miður afþakkað slíkt boð. Hafa slíkar beiðnir verið lagðar fram með reglulegum hætti á fundum embættismanna Íslands og Japans og með utanríkisráðherra. Var erindið m.a. tekið upp í viðræðum utanríkisráðherra ríkjanna í Tókýó í nóvember árið 2014 og fylgt eftir í opinberri heimsókn utanríkismálanefndar til Japans í mars 2016. Í gegnum tíðina hafa helstu rök Japans gegn því að fara í viðræður verið fæð ferðamanna sem ferðast á milli landanna og lítið svigrúm til að opna á frekari lendingarleyfi á flugvöllum. Almennt meta japönsk stjórnvöld stöðuna þannig að ekki sé nægileg eftirspurn í Japan eftir gerð loftferðasamnings. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar reglulega bent á aukningu í fjölda japanskra ferðamanna, en fjöldi þeirra hefur vaxið úr um 3.000 árið 2002 í um 17.000 árið 2015, sem er u.þ.b. 80% aukning.

Ferðaskrifstofur í Japan hafa skipulagt leiguflug á haustin frá Tókýó og Osaka til Íslands síðan árið 2013 og eru ráðgerð fjögur slík flug í haust. Heimild til leiguflugs þarfnast samþykkis frá Samgöngustofu og óskar hún ávallt eftir því að gagnkvæmni við slíka leyfisveitingu verði virt. Loftferðasamningar eru hins vegar fyrst og fremst gerðir fyrir reglulegt flug í viðskiptalegum tilgangi. Ísland kallar ávallt eftir sem víðtækustum réttindum í þeim samningum sem gera flugrekendum jafnvel kleift að fljúga á milli samningsríkis og þriðja ríkis án viðkomu á Íslandi.

Líkur eru á að bæði Icelandair og WOW air muni innan skamms hafa yfir langdrægum vélum að ráða sem gætu flogið án millilendingar til Japans, en til þess að svo sé mögulegt þarf að gera loftferðasamning við Japan. Báðir flugrekendur hafa sýnt áhuga á þessari flugleið og því er afar brýnt að sannfæra japönsk stjórnvöld um að fara í slíkar samningaviðræður.

Þrátt fyrir að Ísland hafi bent á að samningar hafi tekist við flest nágrannaríki og að Japan hafi samið við Norðurlöndin fyrir utan Ísland árið 2012 hafa endurteknar þreifingar undanfarinna ára því miður ekki borið neinn árangur. Ég er hins vegar hjartanlega sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að skynsamlegt sé að nýta 60 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Japans á þessu ári til að sækja á japönsk stjórnvöld um að þeirra tímamóta verði minnst með viljayfirlýsingu um gerð loftferðasamnings milli ríkjanna. Ég tel koma til greina að senda sérstaka sendinefnd til að reifa málið við japönsk stjórnvöld og nýta megi þau tímamót í samskiptum ríkjanna í þeim tilgangi. Einnig hyggst ég taka málið upp þegar ég hitti japanska sendinefnd í næstu viku.