145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

læsisátak.

771. mál
[17:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og segja að ég held að ágæt pólitísk sátt sé um að nauðsynlegt hafi verið að grípa til aðgerða vegna þeirrar stöðu sem blasir við hvað varðar læsi. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að gera má ráð fyrir því að það geti orðið sveiflur í niðurstöðu PISA-rannsókna, en það er augljóst ef við skoðum tölurnar frá árinu 2000 og skoðum þá leikni sem við stöndum frammi fyrir að staðan sem blasir við í PISA-könnunum er sú sem við verðum að taka mark á og hún er að það eru um 30% drengja við lok grunnskóla sem eru ekki í færum um að lesa sér almennilega til gagns. Ef manni finnst það ótrúleg tala er skynsamlegt að horfa á hversu stór hluti grunnskólabarna sem kemur upp úr grunnskólanum og fer í framhaldsskóla, en 98% af börnunum gera það, fer síðan í almennt nám, þ.e. er ekki í færum um að hefja nám í framhaldsskóla vegna þess að þau hafa ekki náð að tileinka sér námsefni grunnskólans. Það er í kringum 27–28% af hverjum árgangi. Ég er ekki að segja að það sé nákvæm fylgni þar á milli, en ég bendi á þær tölur ef menn eru að velta fyrir sér hvort tölurnar sem blasa við okkur út úr PISA-prófunum séu marktækar.

Ég vil líka árétta að PISA-niðurstöðurnar eru ekki mælikvarði á skólastarf á Íslandi, en þær eru mælikvarði á læsi. Það að börn geti illa lesið sér til gagns er gríðarlegt vandamál, bæði fyrir viðkomandi einstaklinga og síðan samfélagið allt.

Það er þess vegna sem ég vildi grípa til aðgerða. Ég geri mér grein fyrir því að fyrir barni sem ekki hefur náð tökum á læsi er verið að loka mjög á leiðir til menntunar að grunnskólanámi loknu. Það stafar af því sú hætta að hér verði til stéttskipt samfélag þeirra sem geta notið aðgangs að menntuninni og þeirra sem ekki geta það vegna þess að þeir hafa ekki náð tökum á því grundvallaratriði menntunar sem þarf til að geta aflað sér menntunar, þ.e. læsi.

Sú leið sem við fórum, sem byggir á þeirri stefnumótun sem ég lagði fram árið 2014, var að gera samkomulag við öll sveitarfélögin í landinu, þau eru 74 sveitarfélögin sem við gerðum samkomulag við um átak í læsi. Grundvallaratriðið er að þetta er ekki miðstýrt átak þannig að það sé einhver ein aðferð eða einhver ein lausn eða einhver ein nálgun sem allir eigi að beygja sig undir eða vinna með. Þvert á móti er gert ráð fyrir því og lagt upp með að það séu skólarnir sjálfir, kennararnir, sveitarstjórnarfólkið, foreldrarnir og allir þeir aðilar sem eigi að hafa frumkvæðið og vinna skipulega að því að tryggja að börnin öðlist þessa kunnáttu. Menntamálastofnun og það læsisteymi og sérfræðiteymi sem þar er er til stuðnings, til að styðja við þá starfsemi, en þetta gerist auðvitað fyrst og fremst í skólunum sjálfum. Þar treystum við á kunnáttu fagfólksins og þekkingu og viljum síðan styðja við hana.

Ég hef stundum heyrt í umræðunni að það er eins og menn hafi gefið sér að verið sé að leggja upp með einhverja eina aðferð við það að kenna lestur. Það er svo fjarri öllu lagi. Við vitum að það eru fleiri en ein og fleiri en tvær aðferðir við að kenna lestur. Það eru kennararnir sem eiga að finna þær aðferðir sem henta hverjum og einum nemanda. Við það eigum við síðan að styðja. Svo er alveg rétt að við erum að leggja upp með t.d. skimunarpróf þannig að við getum fylgst eins vel með og hægt er, svo hægt sé að grípa inn í sem fyrst. Við vitum að eftir því sem krakkarnir verða eldri og hafa ekki öðlast þessa getu, þeim mun meiri hætta er á því að þau lendi í vandræðum í náminu. Eftir að krakkarnir verða tíu ára fer námið að þyngjast hvað varðar greinarnar í skólunum. Ef þeir hafa ekki náð góðum tökum á læsi á þeim aldri fer þetta að verða mjög þungt og erfitt. Þess vegna skiptir miklu máli að fylgjast eins vel og við getum með börnunum, styðja við kennarana, styðja við foreldrana, þannig að við náum betri árangri. Það er ekki ásættanlegt fyrir okkur, sama hvernig því er snúið, að svona stórt hlutfall barna á Íslandi sé í þessum vanda. Ég ítreka það. Þetta speglast með ákveðnum hætti í þeim tölum sem við sjáum hvað varðar fjölda þeirra barna sem koma upp úr grunnskóla og eru ekki í færum um að hefja nám í framhaldsskóla.

Þetta, virðulegi forseti, er ástæðan fyrir því að farið var í þetta læsisátak. Já, það kostar peninga en þeir fjármunir sem fara í læsisátakið eru smámunir miðað við þann kostnað sem samfélagið verður fyrir ef við náum ekki betri árangri hvað varðar læsi.

Enn og aftur: Hér er ekki um að ræða að verið sé að leggja upp með einhverja eina eða tvær aðferðir við það hvernig á að kenna börnum lestur heldur sameiginlegt átak foreldra, kennara og síðan Menntamálastofnunar og menntamálaráðuneytisins til að styðja við þetta, til að leggja áherslu á að það séu gerðar læsisáætlanir, það séu skimanir, það sé fylgst með þessu. En fyrst og síðast að það séu kennararnir á hverjum stað, sem gerst þekkja til, (Forseti hringir.) sem leggja upp með aðferðafræðina. Síðan á að styðja við það. Þar skiptir aðkoma foreldra mestu máli. Þess vegna var það svo að þegar við skrifuðum undir samningana við sveitarfélögin gerðum við það líka með foreldrafélögunum, með Heimili og skóla, vegna þess að það skiptir öllu máli að fá foreldrana með til að tryggja læsið.