145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

læsisátak.

771. mál
[17:21]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Læsisverkefnið eða þjóðarátak um læsi er mikilvægt verkefni sem ég vænti enn þá mikils af í formi stuðnings við heimili og skóla eftir því sem heimili eða skólar kalla eftir. Það er hins vegar lykilatriði að verkefnið sé ekki miðstýrt. Þess vegna þarf það að vera skýrt hvert er hlutverk og ábyrgð hvers og eins í verkefninu, foreldra, skóla, skólaskrifstofu, sveitarstjórna, Menntamálastofnunar og menntamálaráðuneytis.

Ég hef tekið eftir því að afar mismunandi viðhorf eru til verkefnisins eftir landshlutum, einmitt eftir því hvernig það hefur unnist. Til að mynda á Austurlandi fellur verkefnið saman við verkefnið Bættur námsárangur á Austurlandi sem unnið er í skólum og frumkvæðið kemur frá skólunum sjálfum, foreldrum og skólaskrifstofu. Þar hefur þetta fallið vel saman og er virkilega að skila sér alveg inn á hvert heimili.