145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

læsisátak.

771. mál
[17:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem ég held að skipti verulega miklu máli er að átta sig á því að nauðsynlegt var að grípa til aðgerða. Það var ekki hægt að horfa á það aðgerðalaus að um 30% drengja á Íslandi væru í þeirri stöðu við lok grunnskóla að geta ekki lesið sér til gagns og að þróunin væri sú að okkur færi aftur þegar kæmi að því að kenna börnum að lesa. Þetta eru markverðar niðurstöður sem okkur ber að taka mark á. Það væri ábyrgðarleysi að grípa ekki til aðgerða.

Hér er gagnrýnt og sagt: Þessi aðgerð er ekki nógu góð, við viljum gera eitthvað annað. Ég hef ekki enn þá séð frá neinum útfærslu á öðrum hugmyndum, hvernig menn hefðu þá nákvæmlega viljað bregðast við. Það sem verið er að gera hérna er að gert er samkomulag við öll sveitarfélögin í landinu, hvert og eitt einasta sveitarfélag, um að gerð verði sérstök læsisáætlun með læsi í forgangi við öll sveitarfélög sem reka skóla. Lagt er upp með skimunarpróf og þróun á slíkum prófum. Og lagt er upp með aðstoð við kennara. Það er sérstakt teymi sem ég veit að hefur núna verið í samstarfi við ein 17 sveitarfélög og þeim er að fjölga þar sem verið er að vinna með viðkomandi skólum og sveitarfélögum sérstaklega að þessu. Aðrir eru á fullu að vinna að þessu án þess að vera með einhverja sérstaka aðstoð.

Ég er sannfærður um að það er meiri fókus á þessu máli, þ.e. við erum að skerpa mjög áherslurnar á læsi í öllum skólum um allt land. Ég hef farið mjög víða og hitt kennara, skólastjórnendur og sveitarstjórnarfólk, og þar er þetta mál efst á baugi. Við ætlum okkur að ná árangri.

Sú nálgun sem við höfum lagt upp með er ekki einhver miðstýrð áætlun um hvernig eigi að gera þetta. En það er alveg rétt að starfandi eru læsisráðgjafar, það er alveg eðlileg ráðstöfun, sem veita síðan sérfræðiþekkingu sinni í farveg til þeirra sem á henni þurfa að halda. En aðalatriðið er að það er einmitt lagt upp með að sérhvert sveitarfélag og sérhver skóli finni sína leið að þessu markmiði í samstarfi við foreldra og foreldrafélög á viðkomandi stað. Hvernig í ósköpunum, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, má það heita einhvers konar miðstýrt átak? Það er bara rangt. Það er einhver misskilningur á ferðinni ef menn halda að það sé þannig. Aðalatriðið er og um það ætti að geta verið sæmileg og þokkaleg pólitísk sátt: Við látum það ekki spyrjast um okkur Íslendinga að svona stór hluti barnanna okkar geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. (Forseti hringir.) Þeir fjármunir sem við setjum í þetta verkefni eru smápeningar miðað við það sem hér er undir. Ég sé því ekki eftir einni einustu krónu sem fer í það að kenna börnum læsi á Íslandi.