145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

íslenskt táknmál og stuðningur við það.

773. mál
[17:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við stigum hér á Alþingi Íslendinga stórt og mikilvægt skref þegar samþykkt voru lög um íslenska tungu og íslenskt táknmál. Það var mikill gleðidagur fyrir samfélag þeirra sem reiða sig á táknmál í lífi og starfi, en ekki síður gleðidagur á Alþingi Íslendinga þar sem allir þingmenn studdu málið. Það var góð tilfinning að vera þátttakandi í þeirri atkvæðagreiðslu og vera partur af þeim hópi. Okkur var held ég öllum ljóst sem tókum þátt í þeirri atkvæðagreiðslu að við vorum að takast mikla ábyrgð á hendur. Við vorum að lofa því, vorum að lofa okkur sjálfum því og íslensku samfélagi, að íslenskt táknmál hefði stöðu móðurmáls þeirra sem kjósa að nota það í daglegu lífi sínu og þar með ættu upplýsingar, menntun og aðgengi að stofnunum samfélagsins á grundvelli táknmáls að hafa jafnstöðu á við íslensku í sambærilegum tilvikum. Ég held að um leið hafi öllum verið ljóst að við áttum mjög langt í land og að við þyrftum að taka okkur verulega á, ekki síst að því er varðar máltökuumhverfi heyrnarlausra og heyrnarskertra barna, menntunarmöguleika þessa hóps, menntunarmöguleika sem byggja á móðurmáli, bæði með beinni kennslu á táknmáli en ekki síður með menntun í gegnum táknmálstúlkun, þýðingar á námsefni á öllum skólastigum, þá auðvitað fyrst og fremst á skyldunámsstiginu á táknmáli, þýðingar þar með af íslensku yfir á táknmál með aðgengilegum hætti þar sem gæði væru höfð í fyrirrúmi. Skyldurnar eru á herðum mennta- og menningarmálaráðherra af því að þar fer í raun og veru sá ráðherra sem á að halda utan um rétt þessa hóps og tryggja þá jafnstöðu sem hér hefur verið farið yfir.

Á grundvelli þessa spyr ég: Hvernig hafa íslensk stjórnvöld hlúð að íslenska táknmálinu síðan lögin voru sett? Hvað er gert til að tryggja að börnin eigi þess kost að læra táknmál og nota það í daglegu lífi? Hvað er gert til að styðja máltöku og máluppeldi barnanna? (Forseti hringir.) Hvernig er staðið að fræðslu og uppeldi og kennslu í íslensku táknmáli fyrir foreldra og aðstandendur barna með skerta heyrn?