145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

íslenskt táknmál og stuðningur við það.

773. mál
[17:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er svo að í 3. gr. þeirra laga sem hv. þingmaður vísaði til segir að íslenskt táknmál sé fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og að stjórnvöld skuli hlúa að því og styðja. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafði þau lög í huga við endurskoðun aðalnámskrár grunnskóla 2013 þar sem fjallað var um rétt heyrnarlausra og heyrnarskertra barna með skýrari hætti en verið hafði. Þannig voru sett hæfniviðmið við lok 4., 7. og 10. bekkja, sem m.a. taka til talaðs táknmáls og tjáningar með og án táknmálstúlks, þótt ekki væru sett fram sérstök hæfniviðmið fyrir táknmál í öðrum námsgreinum eða námssviðum. Hins vegar var áréttað að huga þyrfti sérstaklega að þörfum táknmálsnemenda þegar þeir legðu stund á aðrar námsgreinar, ekki síst í erlendum tungumálum. Sett voru sérstök matsviðmið sem skólar eiga að nýta eftir því sem við á til að lýsa hæfni nemenda við lok grunnskóla.

Við gerð frumvarpa til laganna voru ákvæði þeirra ekki kostnaðarmetin heldur var vísað til þess að réttindin yrðu virk í áföngum og bent var á að tjáning með og án táknmálstúlks mundi leiða til aukins kostnaðar en talið erfitt að tilgreina upphæð, enda færi það eftir útfærslum hjá hverjum skóla fyrir sig, framboði á táknmálstúlkum og möguleikum skóla til að bjóða upp á slíka kennslu. Einnig var talið líklegt að um aukinn kostnað gæti verið að ræða hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra vegna kröfu um aukna þjónustu.

Virðulegi forseti. Áfram verður fylgst með þróun þjónustunnar. Þörf er á að huga að kostnaðarmati eftir því sem fram vindur.

Það ber þó að taka fram að við gildistöku laganna um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls var ekki gert ráð fyrir nýju fjármagni til innleiðingar þeirra utan þess að auka hlut til málnefndar um íslenskt mál um 1,5 millj. kr. Það fjármagn hefur að litlum hluta einnig verið nýtt vegna málnefndar um íslenskt táknmál.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að minna á að dagur íslenska táknmálsins var haldinn í fyrsta sinn þann 11. febrúar 2013 á afmælisdegi Félags heyrnarlausra. Þetta þekkir hv. fyrirspyrjandi vel sem hefur, má ég segja, beitt sér af miklu afli og hrósverðu fyrir þennan málaflokk. Sú dagsetning hefur verið frátekin æ síðan og skiptir máli að gera sem mest úr þeim degi. Ýmislegt annað má nefna hér.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í undirbúningsvinnu fyrir fjárlög er frátekið sérstakt fjármagn, þ.e. 10 millj. kr., til útgáfu námsefnis á táknmáli. Það er hlutverk Samskiptamiðstöðvar og Menntamálastofnunar að vinna að því mikilvæga verkefni sem kemur til með að bæta stöðu nemenda í þessu námi til muna, að ég vænti. Þarna tel ég að hafi lengi skort á fjármuni til að búa til þetta námsefni. Þar með tel ég mig hafa svarað að mestu fyrstu spurningu hv. þingmannsins.

Það er sérstaklega spurt að því hvað sé gert til að styðja við máltöku og máluppeldi barna með skerta heyrn. Því er til að svara að leikskólar og grunnskólar landsins hafa sitt lögbundna hlutverk til menntunar barna og ungmenna, en að auki er það hlutverk Samskiptamiðstöðvar að annast kennslu táknmáls og veita táknmálsþjónustu. Í þjónustu Samskiptamiðstöðvar er lögð áhersla á að sinna börnum á máltökualdri og nemendum á öllum skólastigum. Miðstöðin annast fræðslu og ráðgjöf til hinna ýmsu hagsmunaaðila, skóla, stofnana og annarra sem veita þjónustu til táknmálstalandi aðila. Miðstöðin veitir foreldrum fræðslu og ráðgjöf og stuðning og upplýsingar og býður auðvitað upp á námsleið. Þetta er allt þekkt en skiptir miklu máli að vel sé að staðið, enda er Samskiptamiðstöðin hjartað í veitingu þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra þegar kemur að táknmáli.

Fjórða spurning hv. þingmanns lýtur að því hvernig staðið er að fræðslu og kennslu í íslensku táknmáli fyrir börn, foreldra og aðstandendur barna með skerta heyrn. Þá er því til að svara að ég hef að einhverju leyti nú þegar lýst þeirri þjónustu sem spurt er um. Ég vil þó að lokum nefna mikilvægan þátt í þeirri viðleitni að viðhalda góðri þjónustu og bæta hana þar sem þess kann að þurfa. Nú stendur yfir afar stórt verkefni við að gera úttekt á menntun án aðgreiningar í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum á Íslandi í samstarfi við og undir stjórn Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir. Sú úttekt nær til allra hagsmunaaðila skólasamfélagsins og þar á meðal hefur starfsfólki, foreldrum og nemendum á táknmálssviði í Hlíðaskóla í Reykjavík sérstaklega verið boðið að taka þátt í rýnihópum og netkönnun. Við fáum niðurstöður þeirrar úttektar í lok þessa árs. Má með sanni segja að verkefnið hafi farið vel af stað og er það vel á veg komið. Við munum síðan vinna áætlun eða þau stjórnvöld sem þá eru við völd munu, vænti ég, vinna áætlun um mögulegar nauðsynlegar úrbætur í menntakerfinu á næsta ári á grundvelli þeirrar vinnu sem ítrekað hefur staðið yfir um nokkra hríð. Ég tel að á grundvelli þeirrar niðurstöðu eigi að vera hægt að vinna að áætlunum sem eigi að vera öllum nemendum mjög til hagsbóta.