145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það var mikil kynning í Hörpu í gær og leiktjöld sett þar upp, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra kynntu hvernig ungt fólk gæti eignast sína fyrstu eign. En fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús því að enn er óleyst það mikla vandamál að aðstoða ungt fólk við að kaupa sína fyrstu eign. Ekkert er tekið á vaxtaokrinu, það er ekkert tekið á verðtryggingunni og það er ekki tekið neitt á því hvernig ungt fólk á að ráða við fyrstu útborgun í íbúð. Á það bara að sitja heima í fanginu á pabba og mömmu þar til það er fertugt og er búið að leggja fyrir í sparigrísinn sinn? Það er auðvitað ekki eðlilegt að stilla hlutunum svona upp. Það er engin lausn í því að segja við ungt fólk að það eigi bara að leggja fyrir næstu tíu árin. Og hvar á það að búa á þessum tíu árum? Á það að vera í leiguhúsnæði sem er auðvitað mjög dýrt og það ræður varla við heldur? Hvar á það að vera, þetta unga fólk með sína fjölskyldu? Við gerum nú ráð fyrir að þetta unga fólk eignist börn og bíði ekki með það næstu tíu árin líka.

Þetta er bara eitt af því sem núverandi ríkisstjórn hendir fram korteri í kosningar til að tikka í box Sjálfstæðisflokksins, að séreignarsparnaður leysi allan vanda. Hann leysir kannski vanda þeirra ríku sem hafa peninga til að leggja fyrir í hverjum mánuði en efnalítið ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref út í lífið með ung börn hefur kannski ekki efni á því að leggja fyrir næstu tíu árin til að safna í útborgun eftir tíu ár og einhvers staðar verður það að vera í millitíðinni. Þessi ríkisstjórn hefur ekki mætt þeim vanda sem bíður ungs fólks á leigumarkaði þó að þau húsnæðisfrumvörp sem voru samþykkt í vor (Forseti hringir.) mæti því vissulega en það er ekki fyrr en eftir nokkur ár.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna