145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til þess að bregðast við orðum hans, en fyrst vil ég segja að engum hef ég hrósað fyrir að kalla hv. þingmann rasista. Í Samfylkingunni ríkir málfrelsi og formaðurinn segir félögum ekki til um hvað þeir megi segja eða hvað ekki. Hins vegar legg ég ríka áherslu á að allir gæti orða sinna og varist að fella dóma og særa fólk og að mannúð og mannvirðing sé ávallt í fyrirrúmi.

Hv. alþingismenn þurfa ekki síst að gæta orða sinna. Þegar hv. þm. Ásmundur Friðriksson velti fyrir sér á dögunum á Facebook-síðu sinni og í fjölmiðlum í kjölfarið hvort ekki þyrfti að kanna bakgrunn þeirra 1.500 múslima sem búa á Íslandi urðu margir reiðir og sárir. Hv. þingmaður vildi kanna hvort einhverjir íslenskir múslimar, sem hv. þingmaður setti innan gæsalappa einhverra hluta vegna, hefðu farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrlandi eða öðrum stríðshrjáðum löndum. Einhverjir skildu hv. þingmann svo að hann væri að hvetja til mismununar og ýta undir fordóma.

Við sem á Alþingi sitjum eigum að gæta hagsmuna allra óháð trú og uppruna og varast að ýta undir hatur og fordóma. Það getur reynst sumum freisting í aðdraganda kosninga að tala inn í óttann við hið óþekkta, en við verðum að standast slíkt og hafa alltaf að leiðarljósi mannúð og mannréttindi. Það ætti ávallt að vera upphafspunktur í öllum umræðum í velferðar- og lýðræðisríki. Ég vænti þess að hv. þingmaður sé mér sammála um það.


Efnisorð er vísa í ræðuna