145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég heyrði formann Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, lýsa því í útvarpinu í morgun að hann væri á móti því að umbylta stjórnarskránni, eins og hann orðaði það, þrátt fyrir að nokkuð meira en 60% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar um hvort þeir vildu að ný stjórnarskrá yrði byggð á tillögum stjórnlagaráðsins hafi svarað því játandi í október 2012. En honum kemur það ekkert við, hann lýsti því líka yfir fyrr í sumar að hann væri á móti kerfisbreytingum. Og hvaða kerfisbreytingum er hann á móti? Hann er á móti því að auðlindarentan hætti að renna í vasa útgerðarmanna. Hann er á móti því að auðlindarentan af raforkunni hætti að renni í vasa álfyrirtækja, hann er á móti því að breyta landbúnaðarkerfinu sem gerir Mjólkursamsölunni kleift að svína á minni framleiðendum, kerfi sem gerir forstjóra Mjólkursamsölunnar kleift að segja að neytendur eigi að borga sektir sem lagðar eru á fyrirtækið.

Í heilbrigðiskerfinu er það svo að alvarlegum veikindum fylgja alvarlegar fjárhagsáhyggjur. Vegir grotna niður í samgöngukerfinu, kosningakerfið er þannig að þeir sem búa norðan Hvalfjarðarganga hafa meira en tvöfaldan atkvæðisrétt á við þá sem búa sunnan þeirra. Og formaður Sjálfstæðisflokksins segist vera á móti kerfisbreytingum. Hann ver sérhagsmuni útgerðarmanna og þeir borga í kosningasjóðina, hann ver skattaívilnanir álfyrirtækjanna, kannski borga þau líka í kosningasjóðina, og ekki hef ég heyrt hann gagnrýna Mjólkursamsöluna sem ætlar að láta neytendur greiða sektir sem á fyrirtækið eru lagðar — af því að hann er á móti kerfisbreytingum. Og nú kynnir ríkisstjórnin tillögur í húsnæðismálum. Til hvers er það? segir forsætisráðherrann. Jú, það er til að verja þjóðina, (Forseti hringir.) fólk, fyrir verðbólguskotum. Hvers vegna einbeitir ríkisstjórnin sér ekki að aðgerðum til að koma í veg fyrir verðbólguskot? Það er vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir eru á móti kerfisbreytingum og setja plástra á svöðusár.


Efnisorð er vísa í ræðuna