145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir varðandi danska kerfið að þar er töluvert af erlendum stúdentum enda er það svo að mjög mikið af því námi sem boðið er upp á þar er á ensku. Þetta fyrirkomulag hef ég rætt sérstaklega við danska menntamálaráðherrann og hvað þeir hyggist gera hvað þetta varðar. Sú staða er ekki almennt uppi hér, meginþorri þess náms sem er í boði í háskólakerfinu er á íslensku og ég held að það sé handleggur fyrir erlenda stúdenta að koma hingað til þess að stunda ýmiss konar nám og ná námsárangri í íslensku umhverfi. Ef þetta fer að verða stórkostlegt vandamál þarf auðvitað að bregðast við því en ég tel að þetta kalli ekki á endurskoðun á kostnaðarmati.