145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skora á hv. þingmann að kynna sér greiningu og þá útreikninga sem stúdentaráð Háskóla Íslands birti akkúrat um þessa umræðu. Þar mun hv. þingmaður einmitt geta leitað sér svara um mismunandi námshópa og mismunandi störf og hvernig þeir koma mismunandi út úr þessu kerfi. Það er auðvitað staðreynd að allir þeir sem eru með námslán undir 7,5 milljónum, sem eru 85% námsmanna, munu koma með lægri greiðslubyrði þegar námi lýkur í þessu nýja kerfi en var í því sem fyrir er.

Hvaða hópar skyldu einmitt koma út með lægri greiðslubyrði? Það er einmitt mikið af þeim hópum sem oft eru akkúrat í umræðunni, hópar sem eru ekki tekjuháir, fólk sem er með t.d. meðallaun BHM, sem munu koma betur út hvað varðar greiðslubyrði á námslánum. Þegar menn setjast yfir þetta og skoða tölurnar og enn og aftur, ég vísa til þess sem er svo aðgengilegt, bæði í greiningunni og í frumvarpinu, en alveg sérstaklega — ég er viss um að margir eru þeirrar skoðunar að ekkert sé að marka það sem kemur út úr menntamálaráðuneytinu eða lánasjóðnum, eitthvað þess háttar, og þá er ágætt að skoða hvað stúdentarnir segja sjálfir, (Forseti hringir.) hvernig þeir hafa reiknað þetta. Þar sér hv. þingmaður svarið við þessu og svarið er: Nei, það er ekki ástæða til að hafa þær áhyggjur sem hv. þingmaður lýsir.