145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við, ég beindi því til hv. nefndar, er að það hefur verið gert ráð fyrir því, og er gert ráð fyrir því, að fjöldi þeirra ára sem námslánin eru veitt til verði styttur um eitt ár. Á það hefur þá verið bent að það geti komið sér sérstaklega illa fyrir þá sem eru í doktorsnáminu. Ég tel ástæðu til að taka mark á þeirri gagnrýni og beini því þess vegna til nefndarinnar að það verði tekið til vinsamlegrar athugunar varðandi þann hóp, þ.e. ef um er að ræða nemendur sem eru í doktorsnámi, þannig að það séu óbreyttir möguleikarnir á námslánum frá því sem er í núverandi kerfi. Það er raunverulega það sem var lagt upp með.

Síðan er það til framtíðar mikið umræðuefni fyrir okkur hvernig nákvæmlega við eigum að standa að fjármögnun þess náms. Ég er þeirrar skoðunar að síðan eigi að horfa til þess í framhaldinu að við eigum að byggja upp í háskólunum sérstaka sjóði til að fjármagna doktorsnámið. Megnið af þeim sem stunda doktorsnám er á einhvers konar launum, styrkjum, stór hluti þeirra. Það er mikill minni hluti þeirra sem hér eru í doktorsnámi sem er bara á námslánum. Þessar tölur eru opinberar og hægt er að fletta þeim upp.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, af því að það er hópur sem þarna er, (Forseti hringir.) að þá eigi ekki að ganga eftir það sem var lagt upp með upphaflega heldur halda núverandi fyrirkomulagi og um leið líka huga að þessum þáttum.