145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt er umræðan um vextina, en menn verða að setja þetta í samhengi við styrkina og skoða síðan hvort endurgreiðslurnar, þ.e. endurgreiðslubyrðin verði hærri eða lægri eftir að nýtt kerfi tekur við. 85% námsmanna munu verða í þeirri stöðu að endurgreiðslurnar verða lægri. Þetta er allt rétt sem hv. þingmaður segir um háa vexti og þeir eru ekki æskilegir. Þó er það svo, eins og reyndar nefnt var, að stýrivextirnir eru núna neikvæðir í Svíþjóð. Ég er viss um að þeir sem þar eru í forsvari hafa verulegar áhyggjur af þeirri stöðu. Það er ekki gott að vera í þeirri stöðu.

Virðulegi forseti. Það sem skiptir máli er heildarniðurstaðan. Ekki bara horfa á vaxtaprósentuna eina og sér heldur samhengi hennar við styrkina og þá blasir við að mikill meginþorri námsmanna verður í þeirri stöðu að þurfa að borga minna á hverjum mánuði af námslánunum sínum en áður. Það er það sem skiptir máli, það er sú staðreynd, en ekki vaxtaprósentan ein og sér. Menn verða að taka þetta í samhengi.