145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst alltaf við hæfi þegar mál eru lögð fram og við 1. umr. að maður spari kannski stórar yfirlýsingar og hlusti meira á hvað framsögumaður hefur fram að færa og reyni að kynna sér efni málsins. Oft hef ég það sem reglu að taka ekki mikið til máls í 1. umr. heldur reyni að hlusta eftir því sem er verið að halda fram. Þetta finnst mér gríðarlega viðamikið mál. Nokkuð mikil umræða hefur verið um það í sumar og strax eru komnar upp í hugann töluverðar efasemdir sem ég ætla að reifa í ræðunni. Auðvitað vona ég að við vinnslu málsins í allsherjar- og menntamálanefnd verði þessum efasemdum mætt. En ég verð þó að segja í upphafi ræðu minnar að mér finnst það ótrúleg bjartsýni hjá hæstv. ráðherra að ætla sér að fá frumvarpið samþykkt fyrir kosningar. Það eru bara örfáir dagar eftir af þessum þingstubbi og það á eftir að fara í alla umfjöllun í nefndinni. Þetta er gríðarlega viðamikið mál sem hefur áhrif á mjög mikilvæga þætti samfélagsins. Ég er ekkert endilega að lýsa yfir að ég telji frumvarpið alslæmt eða slíkt, mér finnst það bara bjartsýni á þessum tímapunkti, með þennan tímaramma, að ætla sér að samþykkja það. Mér finnst þurfa að fá það fram hvort það sé einhvers konar ófrávíkjanlegt skilyrði og sú pressa sé á vinnu nefndarinnar að frumvarpið verði að vera samþykkt. Mér finnst líka við hæfi í svona viðamiklu máli að flokkarnir setji einfaldlega fram stefnu sína fyrir kosningar sem eru í vændum og fólk fái að taka afstöðu til þeirrar stefnu í þeim kosningum. Þetta frumvarp er augljóslega stefna hæstv. ráðherra og hans flokks alla vega og eðlilegt að það sé rætt þar.

Þetta hljóð mundi kannski ekki heyrast úr mínum skrokki ef öðruvísi hefði verið farið að. Það hefur ekki verið neitt mjög viðamikið samráð við aðra flokka á þingi í málinu. Að baki frumvarpinu liggja ekki vinnubrögð eins og t.d. voru til fyrirmyndar í útlendingalögunum sem við samþykktum á dögunum þar sem þverpólitísk nefnd fór yfir það mikilvæga mál, fór í saumana á þeim mikilvæga málaflokki og kom svo fram með frumvarp sem rík sátt ríkti um. Ég mundi telja að málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna og fyrirkomulag námsstyrkja á Íslandi sé mál þar sem flokkar eiga að setjast niður saman í upphafi kjörtímabils og reyna að komast að samkomulagi, vegna þess að ég held að við deilum markmiðum í þessu. Ég held að það hefði verið mjög fínt ef við værum núna með frumvarp sem hefði verið afrakstur slíkrar nefndarvinnu. Þá væri auðvitað allt annað landslag í þessu máli. Gott og vel. Ég er sem sagt ekki viss um að tíminn muni nægja til þess að eyða öllum efasemdum sem eru viðamiklar um þetta frumvarp.

Ég vil segja það fyrst að þegar ég sá fyrstu fyrirsögnina um frumvarpið, bara eins og allur almenningur í þessu landi, í blöðunum, mér hafði ekkert verið kynnt það sérstaklega sem þingmanni eða meðlimi í allsherjar- og menntamálanefnd, þá fannst mér þetta hljóma nokkuð vel. Ég er reyndar alveg sammála því og held að fulltrúar allra flokka séu sammála því að mikilvægt sé að koma á námsstyrkjakerfi á Íslandi og að hluti sé greiddur út í styrk, að það væri gott. Það er til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndunum. Þegar maður sá að það ætti að greiða þennan styrk og síðan lán, þá var maður jákvæður. Ég er enn þá mjög jákvæður í garð þess markmiðs og vil gjarnan ná því.

Svo fer maður að lesa meira og lesa það sem fólk segir um þetta og kynna sér efni frumvarpsins betur. Þá er náttúrlega tvennt sem kemur upp í hugann. Í fyrsta lagi er það markmið námslánalaganna, laganna um Lánasjóð íslenskra námsmanna, að tryggja fólki jafnrétti til náms óháð efnahag. Það vakna auðvitað verulegar spurningar um það hvort því markmiði sé náð með frumvarpinu vegna þess að það blasir þannig við að styrkjahlutann eigi að fjármagna með stífari endurgreiðslu og hærri vöxtum á lánahlutanum. Hæstv. ráðherra hefur orðið tíðrætt um útreikninga stúdentaráðs Háskóla Íslands í þeim efnum. Ég á eftir að kynna mér þá í þaula. Ég á eftir að sjá hvaða forsendur liggja að baki útreikningum þess. Stúdentaráð segir, samkvæmt orðum ráðherrans, að 85% núverandi stúdenta muni koma betur út úr þessu kerfi sem hann boðar (Menntmrh.: Það eru útreikningar sem koma frá lánasjóðnum.) Já, það er þá þeir útreikningar sem þarf að kynna sér. En það eru líka mikilvægar spurningar í því sambandi: Hvað um þennan 15% hóp? Hverjir eru í honum? Er það mikilvægur hópur? Ég held nú að allir sem fara í nám séu mikilvægir hópar. En hvað erum við að ræða um? Er verulegur munur á þessum 15% og 85% hóp? Ég held að við verðum að sjá þetta allt saman og út frá hvaða forsendum er gengið.

Mér finnst það góður punktur sem Jón Ólafsson skrifar í Stundinni 12. ágúst þar sem hann skrifar um þetta frumvarp, til hvers eru námslán er það sem hann fjallar um í greininni. Þær grunsemdir vakna við lestur frumvarpsins að hæstv. ráðherra vilji fyrst og fremst leiðrétta eina tegund af einhvers konar óréttlæti sem er að endurgreiðsla á námslánum núna er bara um 50%. Sumir borga ekki námslánin sín til baka en aðrir borga þau til baka. Þetta sé óréttlátt.

Ég hef margoft lýst þeirri skoðun minni að rétt sé að reyna að breyta þessu kerfi þannig að sá hluti sem fæst ekki greiddur til baka sé á einhvern hátt, að hluta til alla vega, nýttur í það að búa til styrkjafyrirkomulag, en ég er ekki viss um að það sé meginmarkmið lánasjóðslaga að tryggja að allir greiði námslán til baka undantekningarlaust. Ég held að þar kunnum við að vera að útiloka mikilvægan hóp í menntakerfinu sem við viljum að sæki sér menntun sem mun kannski eiga mjög erfitt með það út frá öllum forsendum, út frá lengd námsins, út frá kostnaði við það, er samt sem áður mjög mikilvæg menntun. Það kunna að vera heilu stéttirnar. Það getur vel verið að við þurfum að horfast í augu við það að þessir hópar, einhverjir tilteknir námsmenn, geta ekki greitt að fullu til baka. Það vakna því efasemdir um það hvort það sé raunverulega mikilvægasta markmið lánasjóðskerfisins að allir greiði að fullu til baka. Það kann að vera að við þurfum að fara einhvern milliveg í því. Þar með er ég að segja að þetta sé ekkert endilega gott eins og það er núna þar sem svona fáir greiða til baka að fullu, en einhvern milliveg þurfi að fara. Minn málflutningur mun vera á þeim nótum við umfjöllun nefndarinnar.

Það er náttúrlega verið að afnema tekjutengingu í afborgun á námslánum. Segjum sem svo að það sé rétt að það þýði að nánast allir eða rosalega margir muni samt greiða minna en nú er í mánaðarlega afborgun af námslánum. Segjum sem svo að það sé satt. Ég á eftir að fara í saumana á því. Mér finnst það svolítið ótrúleg yfirlýsing að afnám tekjutengingar hafi það í för með sér. Það kann að vera að styrkjahlutinn komi á móti. En við erum að hanna kerfi til frambúðar. Við erum ekki bara að bregðast við kerfinu eins og það hefur verið. Við erum að hanna kerfi, er það ekki, sem á að virka inn í 21. öldina og við viljum væntanlega hafa það eins og við samþykkjum það. Við ætlum þá að hafa námslánakerfi í framtíðinni sem er ekki með tekjutengdum afborgunum. Það þýðir auðvitað að í framtíðinni, þegar það kerfi sem við erum með núna verður löngu orðið steingleymt, myndast sá hvati í háskólanámi að fólk leiti í nám sem felur í sér hærri tekjur vegna þess að fólk vill vera fljótara að greiða niður lánið eða vill ekki að þessi byrði, sem þá verður án efa talin umtalsverð, verði hlutfallslega of mikil. Þannig að menn munu leita í störf sem mestar líkur eru á að feli í sér háar tekjur. Er það endilega gott sem hvati til framtíðar inn í háskólakerfið? Það held ég ekki. Ég held að við verðum að hanna kerfið þannig að það veiti svigrúm fyrir fólk til að velja sér menntun án þess að hugsa endilega um algjörlega stífa tekjumöguleika sína til frambúðar. Það er mjög mikilvægt að fólk leiti sér líka menntunar vegna þess að það hefur mjög djúpan og mikinn áhuga á tilteknu fagsviði, hefur vísindalegan áhuga á einhverjum rannsóknum sem þurfa að fara fram og eru kannski mjög kostnaðarsamar, vill fórna sér á einhvern hátt í þágu vísinda og rannsókna og aukinnar þekkingar. Þetta þarf líka að vera þarna. Við erum að búa til mjög einsleitan hvata finnst mér með þessu.

Ég velti líka fyrir mér og ég þarf að fá svör við því að reistar eru ákveðnar skorður í meiri mæli en nú er við því að fá lán. Hámarkstími er styttur þó að ráðherra vilji ræða það hvernig hægt er að koma til móts við doktorsnema í því sambandi, hámarksfjöldi eininga og þar fram eftir götunum. Ég þarf að sjá hvernig hópar sem eiga undir högg að sækja eins og öryrkjar, sem vilja kannski leita sér menntunar með öðrum hætti heldur en margir aðrir og yfir lengri tíma, koma út úr þessu, fólk utan af landi og tekjulágir hópar augljóslega, svo eru líka eldri námsmenn. Það er alveg augljóst að það verður mjög erfitt fyrir fólk síðar á lífsleiðinni að leita sér menntunar, ekki bara beint eftir stúdentspróf. Það verður mjög stíf endurgreiðsla, vegna þess að fólk á að vera búið að greiða sín lán 67 ára eða þegar það er komið á almennan lífeyrisaldur.

Ég er ekki viss um að þetta sé rétt stefnumörkun. Ég held að þarna sé algjörlega horft fram hjá því að veröldin er mjög mikið að breytast hvað menntun varðar. Ég held að við séum að horfa inn í 21. öld þar sem verður gríðarleg þörf á símenntun, að fólk sé stöðugt að mennta sig. Það er ekki svo að fólk fari bara í háskólanám og fái eitthvert embættispróf og vinni síðan inni á kontór allt sitt líf. Við munum sjá ævintýralegar framfarir í tækni og vísindum á komandi árum og áratugum, ævintýralegar breytingar á samfélagsgerðinni og það verður mjög mikilvægt fyrir þessa þjóð sem og aðrar þjóðir, mikilvægt fyrir litla Ísland að vera á tánum í þessu og vera með mannafla og mannauð sem er í rauninni sífellt að mennta sig. Þessi þáttur frumvarpsins finnst mér algjörlega vinna gegn þessu. Mér finnst hann gamaldags. Ég á mjög erfitt með það að við ætlum einfaldlega að skrúfa fyrir aukna menntun fólks eftir að það er búið með háskólanám á yngri árum. Ég á mjög erfitt með að kyngja því sem pólitískri stefnumörkun sem er viðeigandi fyrir þá tíma sem við lifum, ég á mjög erfitt með það.

Ég er hins vegar alveg opinn fyrir því að heyra hvaða hugmyndir hæstv. ráðherra hefur til að mæta þessu. Þetta er í rauninni mjög svipuð umræða og fór fram þegar aðgengi eldri en 25 ára var skert að framhaldsskólum. Þá svaraði hæstv. ráðherra því til að hann vildi auka menntun og aðgengi eldra fólks að menntun með öðrum hætti. Það þarf að sýna fram á það hér. Það þarf líka að koma fram á hvaða hátt það verður tryggt að íslensk þjóð sé alltaf með þá menntun sem hæfir hverjum tíma og hæfir nútímanum.

Ég þarf því að fá svör við ákveðnum grundvallarspurningum. Er jafnrétti til náms tryggt með þessu? Eru mikilvægir námsmenn og mikilvægir hópar settir út fyrir sviga? Er verið að auka einsleitni? Það fer ekki saman við það mikilvæga markmið námslánalaga að fjárfesta í fjölbreyttri menntun. Mér finnst að það hljóti að vera markmiðið og er líka mjög mikilvægt efnahagslegt markmið fyrir þessa þjóð. Þessum efasemdum verður a.m.k. að eyða í mínum huga áður en ég ljái máls á því að greiða málinu atkvæði mitt.

Svo vil ég líka minnast á það að lokum að mér finnst mjög bagalegt, og ég sé að stúdentaráð Háskóla Íslands er sammála því, að ekki er afnumið eftirágreiðslukerfi námslána sem gerir námsmenn algjörlega upp á fjármálastofnanir komna og í raun og veru er vaxtabyrðin aukin með frumvarpinu á margan hátt.

Að síðustu verð ég að geta þess að mér finnst það alveg hróplegt óréttlæti, og ætla nú ekkert að fara að tala um mín persónulegu mál í því samhengi, að lán skuli áfram eiga að falla niður við andlát lántaka, en að ábyrgðir eigi ekki að falla niður við andlát ábyrgðarmanns. Þar með sé því kerfi viðhaldið að börn og barnabörn og barnabarnabörn ábyrgðarmanna (Forseti hringir.) hafi ríkari skyldur gagnvart námslánum heldur en fjölskylda og ættingjar lántakandans sjálfs.