145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ræðu. Augljóst má vera að eitt af því sem bíður er að fara vel yfir þá útreikninga sem liggja til grundvallar, bæði það sem lánasjóðurinn hefur reiknað og við í ráðuneytinu og utanaðkomandi sérfræðingar og síðan það sem hefur verið reiknað af hálfu stúdentahreyfinganna, sem ég hvet hv. þingmann til að kynna sér vel. Ég held að þá muni blasa við sú mynd sem ég hef nefnt þegar horft er til endurgreiðslunnar, sem skiptir svo miklu máli í því sem hv. þingmaður er að ræða hvað varðar námsvalið. Ég held ekki að ástæða sé til að hafa þær áhyggjur sem þingmaðurinn hefur um að þetta muni þrengja með einhverjum hætti námsvalið. Þvert á móti get ég fært fyrir því rök að þetta muni auka möguleikana á því að velja sér nám af því að endurgreiðslan mun minnka að svo stórum hluta, endurgreiðslubyrðin mun léttast.

Í öðru lagi hvað varðar að jafnrétti sé tryggt. Já, ég tel að jafnrétti sé alveg tryggt með þessu. En það sem við erum að gera er að aðskilja lánahlutann annars vegar og styrkhlutann hins vegar. Vitanlega þarf að fara vel í gegnum þetta allt saman. Ég held að sú aðgerð sé ekki til þess fallin að draga úr jafnrétti til náms.

Í þriðja lagi. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um framtíðina. Ég ætla að taka það aðeins í seinni hlutanum. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að við þurfum að hugsa mjög margt upp á nýtt í íslensku menntakerfi vegna þeirra breytinga sem hv. þingmaður nefnir. Ég skal nefna við þingmanninn það sem ég hef verið að slást við og berjast fyrir og virkilega lagt áherslu á sem er að í samfélagi eins og okkar byggir framtíð okkar á menntakerfinu og þá er óviðunandi að vera í þeirri stöðu að vera með lélegustu námsframvindu sem þekkist innan OECD á framhaldsskólastiginu og að meðalaldur þeirra sem ljúka BA og BS á Íslandi sé sá hæsti í heimi. Nýting okkar á menntun er of lítil. Við komum of seint í námið og við erum of lengi. Við þurfum að breyta þessu vegna þess að menntunin er auðvitað grundvöllur þessa.

Ég ætla að segja hvað varðar (Forseti hringir.) fjölda þeirra sem eru (Forseti hringir.) eldri en 60 ára að þá held ég (Forseti hringir.) að það hafi verið þannig innan HÍ (Forseti hringir.) að þrír einstaklingar (Forseti hringir.) voru á námslánum, (Forseti hringir.) svo dæmi sé tekið. Það eru 49 einstaklingar á aldrinum 51–59 ára.