145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hjökkum kannski svolítið í sama farinu vegna þess að mitt svar er efnislega mjög svipað því sem ég gaf áðan.

En fyrst þetta: Varðandi að greiðslubyrðin verði léttari og það allt saman ætla ég að hafa þann fyrirvara á því að maður hefur heyrt ýmsar tölur í því og maður þarf að fara vandlega í saumana á því við vinnslu nefndarinnar á málinu. Ég er því ekki reiðubúinn að fallast á það sisvona, það þarf að sjá það allt saman, hvernig það liggur. En gott og vel. Það sem ég er að segja er að jafnvel þótt greiðslubyrðin yrði léttari er kerfið sem tekur við til þess fallið að auka einsleitni og ekki til þess fallið að mæta nauðsynlegum kröfum samtímans um símenntunarsamfélag.

Hvers konar háskólasamfélag erum við að búa til með þessu frumvarpi? Mér sýnist sem fólk muni í framtíðinni sjá þennan veruleika: Sem fyrst eftir stúdentspróf, helst sem allra, allra fyrst. Gott og vel. Fínt. Farðu í háskólanám. Kláraðu það fljótt. Menntaðu þig í starfi sem borgar vel vegna þess að þá þarftu ekkert að hafa of miklar áhyggjur af greiðslubyrðinni, jafnvel þótt hún sé lægri en núna, þá þarftu alla vega ekki að hafa of miklar áhyggjur af henni, hún verður minna hlutfall af þínum háu tekjum. Og menntaðu þig bara einu sinni. Það eru skilaboðin sem kerfið gefur, því að þegar árin líða og fólk er kannski orðið 43, 44 ára og langar að söðla um og hverfa til nýrra verkefna, eins og við tveir höfum ætlað okkur að gera, er því gert erfitt að sækja sér menntun. Samfélagið hefur líka breyst að því leyti að fólk er við fulla heilsu og hefur getu og löngun og (Forseti hringir.) jafnvel meiri þroska til að sækja sér menntun síðar á lífsleiðinni. (Forseti hringir.) Mér finnst það alvarlegt þótt það eigi ekki endilega að vera meginefni (Forseti hringir.) menntastefnunnar (Forseti hringir.) að stuðla að slíkri menntun. (Forseti hringir.) En hér er beinlínis (Forseti hringir.) verið að vinna gegn henni.

(Forseti (ValG): Forseti vill biðja þingmenn að virða tímamörk.)