145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér var svipað farið og hv. ræðumanni, sem ég þakka fyrir ræðuna, fyrst þegar ég fór að skoða frumvarpið og heldur hafa áhyggjur mínar vaxið en minnkað, við virðumst vera á svipuðu spori í þeim efnum. Ég hef staldrað mikið við það sem hv. þingmaður gerði sérstaklega að umtalsefni sem er algjörlega sjálfstæður efnisþáttur þessa máls, þ.e. að afnema með öllu tekjutengingu endurgreiðslna. Í sjálfu sér getum við alveg rætt um fyrirkomulag lána versus að einhverju leyti námsstyrkja o.s.frv. En að því marki sem menn hafa tekið námslán og koma svo til með að endurgreiða þau þá er það auðvitað grundvallarbreyting. Það er hugmyndafræðileg kúvending má segja að ætla að hverfa algjörlega frá því að endurgreiðslurnar taki að einhverju leyti mið af þeim tekjum sem menn síðan hafa eftir að hafa eytt mörgum árum ævi sinnar í nám. Reyndar tel ég að ástæða sé til að horfa líka á hinn endann og gleyma því ekki að löggjöfin um lánasjóðinn er merkileg félagsmálalöggjöf báðum megin frá, því að hún er líka merkileg á útlánahliðina, sú nálgun að tryggja mönnum framfærslu og þar með jafnrétti til náms í gegnum það að að verulegu leyti og án tillits til efnahagslegra aðstæðna skulu allir geta framfleytt sér á námstímanum.

Svo á hinn endann. Ég vil kannski heyra betur í hv. þingmanni varðandi skoðun hans og hugleiðingar í sambandi við að þetta muni þrengja námsvalið. Ég sé ekki betur en að það sé bara einfaldur hvati til þess að sækja í hæstlaunuðu störfin, hafa það í huga þegar maður velur sér nám, hann sé tvöfaldur, því að hann er auðvitað alltaf til staðar í einhverjum mæli að menn velti fyrir sér: Hvaða tekjumöguleika gefur námið mér í framtíðinni? En hann mun tvöfaldast ef menn horfa svo á það að greiðslubyrðin af námslánunum verður hlutfallslega miklu þyngri eftir því (Forseti hringir.) sem launin verða minni. Ég sé ekki betur (Forseti hringir.) en að þetta sé tvöfaldur hvati en ekki einfaldur.