145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir viðbrögðin. Ég held að við þurfum líka aðeins að setja þetta í samhengi við tíðarandann og velta fyrir okkur tímabilum sem við höfum gengið í gegnum og erum kannski að einhverju leyti, og því miður sjálfsagt að verulegu leyti, stödd á enn þá, þ.e. tímum mikillar efnishyggju og mikillar ásóknar í slík veraldleg gæði, há laun og lúxus. Hverjar eru þarfir samfélagsins og hvernig viljum við hafa þetta? Við viljum væntanlega hafa þetta fjölbreytt. Við viljum væntanlega ekki að slíkir hvatar verði of ríkjandi og þrengi að eða fæli fólk frá að mennta sig til mikilvægra starfa, þeirra hluta sem það langar til, sem er að mínu mati hluti af mannréttindum, þ.e. að eiga þess kost að kynna sér og fræðast um og mennta sig í hlutum sem hugur manns stendur til og svo þarfir samfélagsins fyrir það líka. Tökum einn geira og mönnunarþörf hans á komandi áratugum, það eru umönnunarstörfin, það er heilbrigðiskerfið og umönnunarstörfin.

Ég lagði fram fyrirspurn og fékk skriflegt svar í fyrra frá heilbrigðisráðherra um hvernig horfur væru kortlagðar fyrir mönnunarþörf í umönnunarstéttunum og heilbrigðisstéttunum á komandi árum og áratugum. Svarið var býsna hrollvekjandi vegna þess að við stöndum þar frammi fyrir gríðarlegri þörf á fagfólki, á vel menntuðu fagfólki í störfum sem í stórum stíl eru ekki mjög hátt launuð. Er líklegt að þetta fyrirkomulag hvetji til þess að fólk ljúki leikskólanámi á háskólastigi, sjúkraliðanámi og ýmsum öðrum slíkum störfum sem við þurfum svo sannarlega á að halda og í auknum mæli á komandi árum, ef það verður letjandi frekar en hitt að horfa framan í framtíð þar sem námskostnaðurinn að því marki sem hann var tekinn að láni (Forseti hringir.) verður ekki endurgreiddur með tekjutengdum hætti?