145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, fólk í umönnunarstéttum, fólk í skapandi greinum sem skapar oft mjög miklar tekjur en nýtur minni ávinnings af vinnu sinni en það ætti að gera. Nefna má það sem mjög mikilvæga hópa sem því miður eru tekjulágir. Auðvitað væri æskilegt að þeir hópar fengju einfaldlega hærri tekjur og hærri laun, en ég held að jafnvel þótt það yrði, þótt þeir hópar, stórir hópar í útgjöldum ríkisins, hins opinbera, stórir hópar í launabókhaldi hins opinbera, fengju umtalsvert hærri tekjur, sem væri æskilegt, þá held ég að mér sé óhætt að fullyrða að það yrðu ekki launahæstu störfin í samfélaginu. Ég held að þau verði annars konar, kannski því miður, en ég held að það séu ákveðnar líkur á því.

Þá leyfi ég mér að halda því fram að ef við samþykkjum frumvarpið og afborgun námslána verði ótekjutengd, þá muni ekki líða mörg ár þar til sú krafa verður á lofti og mjög skiljanleg að afborganir verði tekjutengdar, vegna þess að þessir hópar munu sjá að hlutfallið er of hátt. Það munu einhverjir verða hér í þessum sal að ræða það hvað endurgreiðslan sé hátt hlutfall af kjörum þeirra sem eru ungir, nýkomnir úr námi, og tilheyra þeim hópum sem við erum að tala um og þar fram eftir götunum. Ég er nokkuð viss um að menn muni þá sjá það af hverju þeir voru með tekjutengingu til að byrja með. Ég held að menn verði að sjá þennan framtíðarpunkt í þessu og meta það út frá því hvort það sé skynsamlegt.