145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:22]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég er búin að bíða lengi eftir þessari stund, að fá að ræða frumvarp til laga um námslán og námsstyrki. Þetta er frumvarp sem hefur greinilega verið í vinnslu uppi í ráðuneyti í einhvern tíma og það vekur athygli að formaður nefndarinnar var jafnframt stjórnarformaður LÍN. Þá verð ég bara að spyrja hvort LÍN hafi verið að búa til lög um sjálft sig og hvort það teljist eðlileg vinnubrögð. Hefði ekki verið betra að fá aðeins hlutlausari aðila til að búa til drög að frumvarpi um þessa mikilvægu stofnun?

Það má líka nefna að í þeirri nefnd sem var skipuð var enginn frá hagsmunasamtökum stúdenta og þar af leiðandi finnst mér við lestur frumvarpsins það miða mjög að hentugleika LÍN. Þetta er mjög LÍN-miðað frumvarp. Það er verið að færa mjög mikil völd til stjórnar LÍN að mínu mati í frumvarpinu og það er gegnumgangandi. — Það væri gaman að fá hæstv. menntamálaráðherra í salinn, ef hann er hérna einhvers staðar, þar sem mig langar að eiga orðastað við hann. Forseti?

Jæja, ókei, þá tala ég bara við loftið.

Það vekur spurningar að þegar við erum að gera heildarendurskoðun þá séum við ekki með almennilega heildarendurskoðun — ég verð eiginlega að viðurkenna að mér þykir mjög sérstakt að hæstv. menntamálaráðherra sé ekki hér. (Forseti hringir.)

(Forseti (ValG): Forseti vill láta hv. þingmann vita að það er verið að kalla eftir hæstv. menntamálaráðherra og vonandi hefur hann bara brugðið sér örstutt úr salnum.)

Gæti ég þá fengið að stöðva klukkuna eða byrja ræðu mína aftur þegar hæstv. ráðherra kemur?

(Forseti (ValG): Forseti telur að ekki sé ástæða til að byrja ræðuna aftur.)

Gæti ég þá …

(Forseti (ValG): Forseti mun kannski taka tillit til ákveðinna sekúndna.)

Já. Áhugavert. Þakka þér fyrir, hæstv. forseti.

Þá ætla ég að halda áfram með það sem ég vildi sagt hafa, m.a. gagnrýni á gerð draga þessa frumvarps og á það hversu margir hagsmunaaðilar frá LÍN fengu að koma að gerð frumvarpsins. Mér þykir mjög óeðlilegt að stjórnin búi til lög um sjálfa sig, ég verð að viðurkenna að mér þykja það ekki vönduð vinnubrögð, og þar af leiðandi er þetta frumvarp einstaklega LÍN-miðað.

Strax í 3. gr. er talað um að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna meti hvort nám teljist aðstoðarhæft. Það eru engir staðlar eða áherslur sem sýna hvenær nám er aðstoðarhæft og hver eigi að meta það og ef það eru einhver vafaatriði hvort nemandinn eigi að njóta vafans eða ekki. Mér finnst mikið vanta upp á að veita nemendum réttindi til að njóta vafans þegar kemur að LÍN.

Það eru fleiri atriði í frumvarpinu sem er mjög vert að taka til athugunar. Í fyrsta lagi er umræðan um styrki. Hvenær er styrkur styrkur og hvenær er styrkur ekki styrkur? Í núverandi kerfi er gert ráð fyrir því að styrkurinn felist í því að nemendur borgi ekki til baka fullt lán nema þeir hafi tekjur til þess. Þess vegna eru afborganir tekjutengdar og að því leytinu til er reynt að stuðla að félagslegum jöfnuði og að fólk sæki sér nám óháð því hverjar tekjurnar eru eftir námið. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir því hér. Hérna eiga allir að borga jafn mikið til baka. Hérna er reynt að sjá til þess að lánasjóðurinn sé arðbær í raun og veru, að lánasjóðurinn fái peningana sína til baka. Það er í raun og veru grundvallarbreyting á hugsuninni um lánasjóðinn. Það er eitthvað sem er mikilvægt að taka til gagngerrar og almennrar umræðu. Svona breytingar þurfa umræðu til að þroskast í samfélaginu. Þá verð ég að fá að nefna að mér þykir það stórkostlega mikil bjartsýni af hæstv. menntamálaráðherra að reyna að fá þetta frumvarp í gegn á lokametrum þingsins, sér í lagi eins og stjórnmálaaðstæður eru í dag, það er verið að boða til kosninga í október og þar fram eftir götunum.

Það eru nokkur atriði sem þarf sérstaklega að huga að í frumvarpinu. Verið er að setja þak á það hversu hátt lán viðkomandi getur tekið. Þakið á hámarksláni er 15 milljónir og þá er ekki tekið tillit til þess hversu mikill hluti af þessum 15 milljónum er til framfærslu og hversu mikill hluti er til að borga skólagjöld. Það er himinn og haf milli þess að þurfa að borga skólagjöld og þurfa að sjá fyrir sér.

Ef markmiðið með lánasjóðnum á vera að fólk geti stundað nám á háskólastigi án þess að þurfa að stunda vinnu samhliða því þarf að gera greinarmun á því til hvers lánin eru veitt. 15 millj. kr. lán dugar ekkert sérstaklega langt. Það sem vantar líka mikið í þessar tölur sem liggja að baki er að rýna af hverju fólk er með há lán. Það gefur augaleið hverjir eru með langhæstu lánin. Í frumvarpinu má sjá fimm hæstu eftirstöðvar lánþega, hæsta upp á 48 milljónir, þannig að þetta eru gífurlega háar upphæðir, en á bls. 29 má líka sjá fjölda lánþega eftir upphæð lána. Flestir eru með lægstu lánin og það er auðvitað skiljanlegt, flestir sem taka lán og eru með opin lán núna eru þeir sem eru annaðhvort bara búnir með BA-nám eða BS-nám eða eru að byrja í námi. Ef við tökum þau lán án þess að vera með skólagjöld eru þau u.þ.b. 3 milljónir, ef ég man rétt. Síðan lækkar hlutfallið, næstflestir eru með 5–7,5 milljónir í lán. Svo eru 4% með 10–12 milljónir í lán.

Í frumvarpinu er ekki greint hvernig fjölskylduhagir þessa fólks eru. Eins og staðan er í dag fá foreldrar sem líka eru námsmenn lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna til að sjá börnum sínum farborða. Einstæð móðir með tvö börn sem fer í fimm ára nám er með um 10 milljónir í eftirstöðvar eftir fimm ára nám, í raun og veru 13,3 milljónir eftir fimm ár samkvæmt töflu 5 á bls. 29. Við sjáum að þeir sem taka hæstu lánin eru mikið til foreldrar. Það er ekki tekið tillit til þess þegar lánin eru skoðuð og það er algjör forsendubrestur þegar maður reynir að útskýra þetta. 15 milljónir hámark, einstæð móðir með tvö börn fær 10 milljónir í nýja kerfinu og styrkurinn er sá sami og hjá öðrum. Einstaklingur í foreldrahúsi fær styrk og þarf ekki að taka lán. Við sjáum bara hvernig þetta er unnið. Það er algjör forsendubrestur að líta ekki til aðstæðna fólks þegar við reiknum út hversu mikið það tekur í lán.

Þess vegna finnst mér einstaklega mikilvægt, og það er eitthvað sem hefði mátt gera í frumvarpinu, að aðskilja framfærslulán frá skólagjaldalánum. Þetta eru ekki sömu hlutirnir. Varðandi framfærslu, sérstaklega þegar við erum að tala um framfærslu barnanna okkar, væri óskandi að við gætum valið og tekið það góða úr norrænu leiðunum, eitt er t.d. að framfærsla barna hjá stúdentum er þar í raun og veru styrkur. Mér þætti það miklu eðlilegri leið til að veita styrk en að einstaklingar í foreldrahúsum njóti þess að fá styrk, en í þessu kerfi sem hér er verið að stinga upp á munu þeir fá 65 þús. kr. á mánuði. Hvaða áhrif mun það hafa á neyslu, hvaða áhrif mun það hafa á verðbólgu? 65 þús kr., það er mjög fínt fyrir barina niðri í bæ að fá þá búbót þar sem námsmenn eru frægir fyrir það að vilja drekka svolítið mikið, ekki verra ef þeir fá að gera það með ríkisstyrkjum. Ég set stórt spurningarmerki við þetta fyrirkomulag. (Gripið fram í.) — Það verður bara að segjast eins og er.

Varðandi hámark á námslánum þarf að gera greinarmun á því hvort við séum að tala um hámark á skólagjöldum eða hámark á framfærslulánum, einfaldlega af því að sumt nám er dýrt. Sumt nám getum við ekki boðið upp á á Íslandi og þá spyr ég bara: Hvað kostar mikið að borga undir einn læknisfræðinema í Háskóla Íslands? Hvað kostar það? Þegar við ætlum að gera svona mikla kerfisbreytingu þurfum við að taka tillit til þess að stundum er einfaldlega ódýrara fyrir okkur að senda fólk út í nám, sérstaklega þegar um er að ræða listnám, en ég veit að hæstv. menntamálaráðherra er mikill listunnandi. Skólagjöldin í frægustu leiklistar- og tónlistarskóla í heiminum eru ekkert sérstaklega lág. Það eru ákveðnar greinar sem við erum ekki með kennslu í eins og t.d. í hljóðfæraleik, fólk þarf oft og tíðum að fara út fyrir landsteinana til þess að stunda framhaldsnám í hljóðfæraleik.

Mér finnst frumvarpið ekki taka á þeim vandamálum sem íslenskir námsmenn búa við akkúrat núna. Hérna er haldið í alla helstu galla kerfisins og búið til einhvers konar krónutölujafnrétti þannig að krakkar sem búa heima hjá foreldrum sínu geta enn þá sótt um námsstyrki og þeir koma í raun best út úr þessu kerfi. Ef maður þarf ekki að taka lán fær maður mesta styrkinn.

Það er eitt sem mig langar líka til að nefna við hæstv. ráðherra þar sem hann er hérna, en það er samanburðurinn á styrkjum í gamla kerfinu og nýja kerfinu, hvernig myndræn framsetning á því er í frumvarpinu. Á bls. 36 er mynd sem heitir „Styrkur eftir tegund — gamalt kerfi“ og síðan er önnur mynd sem heitir „Styrkur eftir tegund — nýtt kerfi“. Það kemur í ljós að myndirnar eru ekki jafn stórar. Ég vona að þetta séu bara mistök en þetta villir manni sýn þegar maður blaðar í gegnum þetta sem þingmaður og það munar einum 3 sentímetrum og þar af leiðandi virðist styrkurinn vera meiri í nýja kerfinu en því gamla. Þetta er eitthvað sem þyrfti að athuga.

Sömuleiðis er annað sem mér þykir vera mjög villandi framsetning, það verður að segjast eins og er. Þetta er tafla á bls. 29 sem sýnir lán eftir þriggja ára nám og fimm ára nám. Lánin, tölurnar sem eru hérna, eru bara að nafnvirði. Ekki er sýnt hver lánin eru að raunvirði við lok náms þar sem vextirnir byrja að tikka inn um leið og útborgun lánsins á sér stað sem er eftir hverja önn. Það þýðir að einstaklingur eftir þriggja ára nám, með sex annir að baki, er með sex opin lán, sex skuldabréf réttara sagt. Eftir fimm ára nám er hann með tíu skuldabréf. Hér segir að þetta séu 5.527.000 kr. fyrir lán í nýja kerfinu ef um að ræða einstakling sem tekur fulla framfærslu í fimm ár. En raunvirði lánsins á þeim tíma þegar hann lýkur námi er um 6.270.000 kr. Þarna er 700 þús. kr. munur. Það er ekkert tekið tillit til þess í þeim útreikningum sem við erum með hérna og það er það sem mig langar til að gagnrýna hæstv. ráðherra fyrir. Þetta er villandi framsetning. Þarna er verið að sýna, jú, það er alveg hægt að segja að þetta komi mögulega betur út. En betur út fyrir hvern? Ég er ekkert viss um að þetta komi betur út fyrir barnafólk sem þarf að borga af 10 millj. kr. láni með 3% vöxtum. Að sama skapi er vaxtaupphæð af 3 millj. kr. láni með 3% vöxtum eftir 40 ár samtals 2,4 millj. kr. á meðan vextir af 5 millj. kr. láni með 1% vöxtum fyrir einstakling í núverandi kerfi væru u.þ.b. 1 milljón. Vaxtamunurinn er það mikill að við þurfum virkilega að taka umræðu um það hvort þörf sé á að hækka vexti jafn mikið og hér er gert.

Það er eitt hérna sem ég væri að sama skapi rosalega til í að fá svar hæstv. ráðherra við og það er álag vegna væntra affalla. Mér finnst það ekki nógu skýrt. Það segir um lánakjörin í 16. gr., minnir mig, að vextir skuli vera 2,5% „að viðbættu álagi sem jafngildir væntum afföllum af endurgreiðslu námslána“. Þarna erum við að tala um rosalega opna klausu. Ég er ekki viss um hvernig LÍN fær að túlka þetta. Erum við að tala um 0,5% viðbætt álag? Þurfum við ekki að setja eitthvert þak á það álag sem LÍN getur sett á námsmenn vegna væntra affalla? Það er margt hérna sem þarf að laga (Forseti hringir.) og mikið af tölunum hérna — átti ég ekki að fá nokkrar aukasekúndur? Nei, allt í lagi, það er greinilega kominn nýr virðulegur forseti. Jæja, þá skal ég halda aðra ræðu til að fara yfir allar hinar áhyggjur mínar.