145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli á því að þegar hv. þingmaður segir að þetta kerfi gangi út á að lánasjóðurinn fái peningana sína til baka þá er það auðvitað alrangt. Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir því að 47–48% af þeim fjármunum sem lánasjóðurinn lánar sé í raun og veru styrkur, þ.e. komi ekki til baka. Það er ekki ætlunin að breyta því eða draga úr styrknum, þvert á móti kallar þetta frumvarp á, verði það að lögum, að ríkissjóður auki fjárframlög sín til sjóðsins. Það er því röng túlkun að halda því fram að hér sé verið að gera breytingar á grundvelli þess að lánasjóðurinn fái peningana sína til baka. Styrkhlutfallið verður ekki minna en það er núna.

Virðulegi forseti. Ég er með eina spurningu til hv. þingmanns, því að verið er að ræða afborgunarþáttinn og útkomuna fyrir einstaka hópa. Hér liggja fyrir útreikningar sem ég veit að hv. þingmaður hefur ekki kynnt sér en þeir voru birtir í dag. Ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á þessu. Þar er verið að skoða hefðbundinn hjúkrunarfræðinema sem tekur námslán og tekur bachelor-gráðu, 240 ECTS-einingar, og skoðaður munurinn á þessum tveimur kerfum, hver endurgreiðslan verður. Í þeim útreikningum sem hafa komið frá stúdentunum er niðurstaðan sú að í núverandi kerfi mundi endurgreiðslan vera 5.636.204, en í nýja kerfinu 5.449.668. Að því gefnu að þetta sé rétt mundi ekki hv. þingmaður vera mér sammála um að það væri betra kerfi sem gerði það að verkum að hjúkrunarfræðingurinn sem ég nefndi — áðan var rætt um þörfina á fleiri starfsmönnum í hjúkrunar- og umönnunarstörf — ef niðurstaðan er þessi, ef við gefum okkur að það sé rétt reiknað, er þá ekki hv. þingmaður mér sammála um að þetta kerfi með þeim breytingum og niðurstöðu sem ég lýsti áðan, þ.e. að endurgreiðslan yrði lægri, væri æskileg kerfisbreyting?