145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:44]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að ég tel að við þurfum að aðgreina skólagjaldalán og framfærslulán.

Á bls. 34 í frumvarpinu þar sem verið er að tala um greiðslubyrðina kemur fram að ef nemandi tekur lán, 9,4 millj. kr., fyrir bakkalár- og meistaranámi og lýkur því á fimm og hálfu ári að ef mánaðarlaun eru yfir 500 þús. kr. þá er greiðslubyrðin 23 þús. kr. á mánuði. Maður spyr sig, alla vega ég: Þessi dæmi sem er verið að taka hérna, 500 þús. kr. á mánuði, 825 þús. kr. á mánuði, við erum að tala um frekar há laun, er það ekki? (Menntmrh.: … BHM …) Já, en það eru líka leikskólakennarar sem eru ekki með 500 þús. kr. á mánuði og grunnskólakennarar sem eru ekki með 500 þús. kr. á mánuði. Við sjáum náttúrlega fram á það. Ég hefði viljað sjá miklu ítarlegri greiningu frá ráðuneytinu varðandi nákvæmlega þetta, hvernig það kemur út fyrir sérstaka tekjuhópa. Því miður er það ekki gert í frumvarpinu.

Ég hef lesið frumvarpið yfir nokkuð oft í sumar og það búið að flækjast með mér út um allt. Ég sé ekki betur en að þeir sem taka lán séu einfaldlega þeir sem greiða niður sinn styrk á meðan þeir sem taka styrk fá bara styrk. Þannig að ég sé í raun og veru engan félagslegan jöfnuð í þessu. Jú, ókei, þetta er lánakerfi enn þá, en við erum að tala um hvernig jöfnunarkerfi þetta er. Þetta er svona ákveðið krónutölujafnrétti sem er verið að bjóða upp á hérna. Allir fá sömu krónutöluna, síðan skulum við tala um lánin. Þeir sem taka lánin borga þetta í raun og veru niður. Mér finnst það bara ekkert sérstaklega sanngjarnt. Annaðhvort að búa til styrkjakerfi sem hefur nógu mikinn styrk til að fólk geti framfleytt sér og sínum eða bara hafa lánakerfi, eins og við erum með, með einhverjum ívilnunum ef fólk klárar á réttum tíma eins og Norðmenn gera. Ég er því ekkert sérstaklega hlynnt þessari nálgun hreinlega af hugmyndafræðilegum ástæðum. Það getur bara vel verið að við höldum áfram að vera ósammála um það.