145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:47]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá að taka til máls um þetta stóra og mikilvæga mál. Ég á ekki sæti í allsherjar- og menntamálanefnd en hef aðeins verið að skoða málið. Við erum bara í 1. umr. þannig að ég hlakka til að sjá framhaldið, mér hefur fundist umræðan mjög góð og fræðandi, og ég hlakka til að sjá hverju fram vindur hjá nefndinni. Ég vona að hún geti tekið með sér það sem hér hefur komið fram í umræðunni.

Mig langar að koma að nokkrum punktum. Fyrst vil ég segja að auðvitað er það þannig, og ég held að langflestir séu á því og veit það eiginlega raunar, að allir fagna þeirri hugsun að færa námslánakerfið inn í styrkjakerfi á Íslandi. Það er löngu tímabært en við verðum að gera það almennilega. Hér er uppi hugmyndafræðilegur ágreiningur um hvernig það er gert, það er nokkuð ljóst. Hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir lauk ræðu sinni þar sem hún sagðist hafa flækst með frumvarpið í allt sumar og hefði mikið verið að leita að jöfnuðinum í frumvarpinu. Það hef ég líka verið að gera, ég hef verið að leita að því hvar við finnum jöfnun fólks, hvar finna megi því stað í frumvarpinu að fólk með mismunandi tækifæri úr mismunandi áttum með mismunandi upplegg fái jöfn tækifæri í námslánakerfi eða styrkjakerfi til náms á Íslandi. Skemmst er frá því að segja að sá hv. þingmaður sem talaði á undan mér er ekki einn um að hafa ekki fundið því stað í frumvarpinu. Hér er takmarkið greinilega ekki að reyna að jafna tækifæri námsmanna til náms. Það kemur ekkert sérstaklega á óvart af því að það er kannski ekki beint það sem sjálfstæðismenn hafa verið þekktir fyrir að vera að gera, ekki hugmyndafræði þeirra.

Styrkur per se, það er gott og vel að honum sé komið á, en 65 þús. kr. eru ekki neitt neitt og svo skilst mér að líka eigi að taka tekjuskatt af þessum 65 þús. kr. Fólk verður þá að leiðrétta mig ef það er ekki þannig. Þetta verður því ekki neitt neitt.

Í annan stað er það mín skoðun og mín sýn, ég hef mjög mikinn skilning á því að hæstv. ráðherra vilji beita sér fyrir því að reyna að finna út hvernig við fáum fólk til að gangast við skuld sinni. Það er ósanngjarnt að sumir borgi allt til baka, þeir sem hafa tekið tiltölulega lítil lán, en aðrir sem hafa tekið hærri lán, farið í dýrari skóla — við ráðherra erum sammála um þetta — það er ósanngjarnt að það lendi á öllum hinum, á skattgreiðendum, að borga það til baka. Við verðum að reyna að finna út úr því. Hins vegar hef ég ekki séð í frumvarpinu hvernig það er leyst án þess að vera stórlega gallað á margan annan hátt. Ég hef ekki séð það en reyna má að opna augu mín fyrir því.

Fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra að það sé vont að við Íslendingar förum of seint í nám og séum of lengi í námi, að þetta sé allt saman mjög bagalegt fyrir hagkerfið. Ég hef að ákveðnu leyti skilning á því, en mig langar samt sem áður að varpa ljósi á það og færa þetta inn í þann raunveruleika sem við erum að sjá í öðrum Evrópulöndum þar sem fólk fer snemma í nám og fer út á vinnumarkaðinn með nákvæmlega enga reynslu af vinnumarkaði. Það kemur snemma, alla vega fyrr en við, flest, úr háskólanámi en er þá kannski blautara á bak við eyrun en þeir Íslendingar sem eru vanir að vinna mikið á sumrin, vinna kannski á milli menntaskóla og svo háskóla. Það er bara mjög dýrmætt að safna sér reynslu og skiptir líka máli fyrir samfélagið að við fáum fólk inn í menntakerfið sem hefur aflað sér starfsreynslu og veit kannski aðeins betur hvað það vill fara að læra, er ákveðnara vegna þess að það hefur getað sigtað út hvar áhugasviðið liggur. Það gerist einmitt úti í lífinu sjálfu en ekki kannski bara við skólaborð. Mig langar dálítið að þetta sé sett í samhengi og við metum okkur þetta svolítið til tekna. Mér finnst lítið rætt um þetta í þessu samhengi.

Þá aðeins að því sem hefur komið fram hérna með endurgreiðslu námslána, þ.e. tekjutengingin er afnumin. Ljóst er að þetta kemur verr út fyrir langskólagengna einstaklinga sem vinna í hefðbundnum kvennastéttum, eins og ljósmæður og hjúkrunarfræðinga. Þetta er langt nám og ofan á það bætist hjá konum hinn náttúrulegi 10% launamunur sem þær mega einhvern veginn búast við. Ég vil segja heilt yfir fyrir konur að þá er þetta kerfi sem er verið að bjóða upp á hér algjörlega glatað af því að við eigum þá að fara að borga jafn hátt og aðrir, það er engin tekjutenging, en það er viðbúið að konur sem þjóðfélagshópur fái lægri laun, þann óútskýrða launamun sem getur bara verið skýrður út frá kyni, því miður.

Ég hef líka áhyggjur af námsmönnum utan af landi, námsmönnum með börn á framfæri, einstæðum foreldrum í námi og ég hef áhyggjur af því sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar, þeirri jöfnun sem mér finnst vanta algjörlega í frumvarpið. Fyrst fær maður styrk en svo er hægt að taka námslán ef maður þarf eitthvað meira og það er alveg vitað mál að það þarf meira ef maður er með börn á framfæri, er einstætt foreldri eða kemur utan af landi. Þessir hópar þurfa þá að bera hærri greiðslur og eru síst í stakk búnir til að geta gert það.

Þá er það framfærslukostnaðurinn þar sem fram kom í ræðu ráðherra að hann hældi sér af því og tók það sérstaklega fram að námsmannahreyfingar hér á landi hafi barist fyrir því lengi að við færðum þetta lánakerfi að raunverulegum framfærslukostnaði. Hæstv. ráðherra segir að þetta sé að takast núna, verið sé að veita fyrir 100% framfærslu en ekki 90% eða eitthvað sem það var áður. Gott og vel, þá skiptir auðvitað máli hvernig framfærslukostnaður er reiknaður út. Ég hef ekki það miklar áhyggjur af því hér á Íslandi en það hefur einmitt komið fram í umsögnum um málið og í aðdraganda málsins að erlendir stúdentar voru mjög reiðir yfir því hvernig ráðherra setti upp framfærsluviðmið þeirra. Við áttum umræðu um þetta áður en þingi lauk í vor þar sem SÍNE, Samband íslenskra námsmanna erlendis, vefengdi mjög þær tölur sem ráðherra lagði upp með í greiningum sínum þegar hann reiknaði framfærsluviðmið fyrir námsmenn erlendis. Þetta þarf að skoða mun betur og svara þarf gagnrýni þessa hóps miklu betur.

Maður er fljótur með tímann. Ég er með nokkrar spurningar sem mig langar kannski ekkert endilega að beina til ráðherra eða, jú, fyrst hann er í salnum. Ég þakka fyrir að hann situr hér undir ræðum okkar allra. Það eru nokkrar athugasemdir við einstakar greinar sem mig langar að koma inn á, fyrst við 2. gr.: „Nám sem er skipulagt samhliða vinnu er ekki aðstoðarhæft hjá sjóðnum.“ Ég spyr einfaldlega: Er þetta nýtt? Má þá ekkert vinna með námi? Erum við þá að tala um að vinsælt nám eins og NPM- og MPA-nám, allt það nám, nám með vinnu, að búið sé að slá út af borðinu að það verði námslánahæft?

Svo er 5. gr.: „Réttur til aðstoðar vegna náms á Íslandi.“ Í frumvarpinu er sagt að ríkisborgari EES-ríkis geti sótt um þetta að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum: námsmaður er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur og heldur áfram vinnu hér á landi meðan á námi stendur. Ég spyr einfaldlega: Miðað við 2. gr. sem ég nefndi, að námsmaður fengi ekki lán ef hann væri starfandi, hvernig getur þetta þá gengið saman? Það væri gott að fá svar við því.

Síðan er 9. gr.: „Hámark námsaðstoðar, áhrif aldurs og takmörkun vegna launaðs náms.“ Ég var kannski búin að koma aðeins inn á þetta áðan í ræðu minni með hvernig þetta kemur verr út væntanlega fyrir konur og auðvitað eins og fólk hefur verið að ræða hér, þingmenn á undan mér, það að fara þá seinna í nám, fara 35 ára í nám eða um fertugt, og þurfa þá að borga drjúgan hluta ráðstöfunartekna sinna í námslánin aftur til að borga þau upp fyrir 67 ára aldur.

Svo eru vaxtakjörin. Þetta er veruleg hækkun, úr 1% í 2,5%. Það er alltaf talað eins og þetta séu svo frábær lán af því að þau eru með svo lága vexti en samt er það þannig — ég get bara tekið dæmi af mér sjálfri, ég fór þessa öruggu leið, tók lítil námslán, alveg eins lítið og ég gat, en út af verðtryggingu og öðru hækka námslánin alltaf þó að ég borgi mikið inn á þau í hverjum mánuði. Allt tal um að þetta sé svo æðislega hagstætt fyrir okkur á sér ekki stoð í mínum raunveruleika, inni í mínum einkabanka, þannig að ég hef ekki alveg vitað hvað fólk á við í þessu sambandi. Nú á að hækka í 2,5% og lánin eru verðtryggð áfram en með þeirri nýbreytni að vextir falla á lánið um leið og það er greitt út en ekki frá því að námi lýkur. Þetta þýðir verulegar hækkanir á endurgreiðslu námslána.

Að síðustu, af því að ég sé að tími minn er að renna út, er 21. gr. sem hefur að gera með stjórn sjóðsins: „Stjórn sjóðsins er heimilt að fela fjármálafyrirtækjum útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu.“ Mig langar að vita hvað þetta þýðir, hvort þetta sé nýtt. Þýðir þetta að fjármálafyrirtæki eins og Drómi geti tekið yfir innheimtu eða þýðir þetta að lögfræðistofur með innheimtufyrirtæki „on the side“, hvað þau heita öll, eru þá orðin fjármálafyrirtæki? Við þekkjum að þau eru nú þegar að innheimta fyrir lánasjóðinn sem mér hefur þótt ofboðslega bagalegt eða einhvern veginn kjánalegt. Getur lánasjóðurinn ekki gert það sjálfur?

Ég kemst ekki yfir öllu meira að sinni en mér þætti vænt um að þetta færi áfram, að minnsta kosti til nefndarinnar, (Forseti hringir.) og yrði skoðað betur.