145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[17:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þetta viðamikla mál og sjónarmið sem vakna þegar það er skoðað og rýnt. Ég vil í upphafi þakka ráðherra fyrir að taka tekið þátt í umræðunni af miklum krafti í dag. Það er mikilvægt að ráðherra fylgi svona mikilvægum málum vel úr hlaði og eigi samtal við þingmenn um málin. Við jafnaðarmenn höfum alltaf lagt mikla áherslu á fyrirkomulag námslána og finnum til mikils stolts yfir því að Gylfi Þ. Gíslason átti frumkvæðið að því að koma á því námslánakerfi sem við höfum lengi búið við. Það hefur í nærri hálfa öld tryggt jafnrétti til náms og mjög öfundsverðar aðstæður fyrir fólk til þess að afla sér háskólamenntunar innan lands og utan.

Mér finnst líka mikilvægt að halda því til haga að við höfum í meira en áratug haft sem stefnu okkar í Samfylkingunni að komið verði á fyrirkomulagi námsstyrkja. Mér finnst jákvætt og skynsamlegt að stíga það skref. Það skiptir máli með hvaða hætti það er gert.

Grundvallarhugmyndin um námslánakerfið eins og það er er að það sé jöfnunarkerfi og skapi jöfn tækifæri þeim sem gætu annars ekki stundað nám. Eðli námsstyrkjanna er hins vegar nokkuð annað. Það er eins og vel kemur fram í frumvarpinu og er rökstutt víða í frumvarpinu til þess að auka hagkvæmni í rekstri háskólakerfisins, hvetja til bættrar námsframvindu og stytta þann tíma sem líður fram að útskrift. Það eru færð fram ítarleg rök og margar tölur um að fólk ljúki námi mun seinna á Íslandi en í öðrum löndum.

Það segir á einum stað í frumvarpinu að ávinningur ríkisins af betri námsframvindu sé 3,1 milljarður á ári. Mér finnst þetta vera lykiltala. Þegar við horfum á málið eins og það liggur fyrir hér þá eiga að koma til styrkir. Það mun koma eitthvert viðbótarframlag frá ríkinu, vissulega, einhvers staðar á bilinu 1–2 milljarðar, en afganginn af kostnaðinum við kerfisbreytinguna eiga þeir nemendur að greiða sem þurfa á námslánum að halda. Þar finnst mér ekki rétt fram gengið. Ég held að við eigum að byrja á því að segja: Það er alveg öruggt að ríkið sjálft á að leggja til þennan 3,1 milljarð, það er bara hagnaður ríkisins af aukinni framleiðni í kerfinu. Ríkið mun auðvitað njóta þeirrar framleiðniaukningar með ýmsum öðrum hætti. Síðan skulum við taka summuna sem eftir er og spyrja: Hvaða breytingar þurfum við að gera á námslánakerfinu til að taka á ýmsum ágöllum þar? Það getur vel verið að þá sparist einhverjir peningar, það getur vel verið að breytingar þar kalli á aukin útgjöld að einhverju leyti, en mér finnst að við eigum að halda þessu aðskildu, ríkið eigi að kosta til því sem þarf við að koma á námsstyrkjunum og síðan eigi námslánin að koma til viðbótar. Það getur vel verið að hægt verði að finna einhvern sparnað við útfærsluna þar vegna þess að við erum öll sammála um að ákveðin óhagkvæmni er innbyggð í kerfið í dag. Ríkisstyrkurinn nýtist með ákaflega tilviljanakenndum hætti. Í frumvarpinu eru tölur um hæstu lánin undanfarin ár sem eru gríðarhá. Samkvæmt frumvarpinu eru það um 20% lántakendanna sem fá 74% af ríkisstyrknum. Það segir sig auðvitað sjálft að það er ekki endilega það sem við viljum.

Það er líka mjög mikilvægt að hafa í huga við þessar aðstæður að það eru líka kostir við það í núverandi kerfi að fólk geti farið í nám, ekki bara þegar það er kornungt. Það er kannski það sem mér finnst aðeins skorta á í umfjölluninni í frumvarpinu. Með fullkomlega eðlilegum hætti er stefnt að því að fólk geti ekki safnað upp miklum námslánaskuldum mjög seint á ævinni sem er augljóst að það nái aldrei að greiða, en mér finnst samt ekki nægjanlega skýr umfjöllun um hvernig ríkið ætlar að taka á þeirri staðreynd, ekki bara á Íslandi, heldur í mörgum öðrum löndum er fólk á orðið tvo, jafnvel þrjá, karríera á lífsleiðinni og þarf að endurmennta sig til algjörlega nýrra starfa. Mér finnst skorta aðeins umfjöllun um það.

Mér finnst líka galli að sumar af breytingunum sem blasa hér við finnst mér vera þannig að menn hafi farið í uppsóp til að passa að gera breytingar sem gætu mögulega sparað pening en eru allar stúdentum í óhag. Það er t.d. haldið áfram með það að greiða námslán út eftir á, sem þýðir að bankakerfinu á Íslandi er gert kleift að sjúga peninga út úr stúdentum. Ég vil meina að ef þetta verður að veruleika þá sé farinn að verða tími til kominn til þess að láta á það reyna fyrir Eftirlitsstofnun EFTA hvort það standist að þegar íslenska ríkið er með bankakerfi sem er meira og minna í ríkiseigu sé verið að gefa íslenskum bönkum með þessum hætti óheft tækifæri til að græða á námsmönnum. Ég trúi því bara ekki að það geti staðist. Mér finnst þess vegna full ástæða til þess í nefndinni að horfa sérstaklega til að breyta þessu.

Það er ekki heldur kveðið skýrt á um að skólagjaldalán eigi að vera dýrari en framfærslulán. Mér finnst eðlilegt að það sé gert. Það er sagt að þetta séu tvenns konar lán. En við vitum það líka, það er alla vega ýmislegt sem bendir til þess í fortíðinni, að við höfum séð mikla fjölgun háskóla sem byggja á skólagjöldum og það sé lánað til skólagjaldagreiðslna. Við þurfum aðeins að stemma þá á að ósi.

Það er líka athugunarefni og kemur fram í frumvarpinu að ein af ástæðunum fyrir breytingunum núna sé mikil fjölgun lánþega í kjölfar átaksins Ungt fólk til athafna og Nám er vinnandi vegur sem við réðumst í í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég er mjög stoltur yfir að hafa átt hlut að því að koma því verkefni á. En það var hluti af meðvitaðri ákvörðun um að nýta háskólana til að endurmennta fólk. Við þurfum að ákveða það þá núna og taka afstöðu til þess hvernig við ætlum að tryggja að ríkisvaldið hafi tækifæri til þess að gera það sama í næstu kreppu, að nýta háskólana til þess að mennta fólk betur, fylla skólana frekar en að láta fólk vera á atvinnuleysisbótum, til að fólk auki hæfni sína og fari í frekara nám. Þarna þarf að taka efnislega afstöðu til álitamála.

Ég tek líka eftir enn einni breytingu sem mér finnst vera námsmönnum í óhag. Það er sú staðreynd að í stað þess að lánið sé gefið út í lok námstíma og taki þá vexti og verðbætur á það að vaxtareiknast og verðbætast allan námstímann. Það er nú svolítið kaldhæðnislegt fyrir framsóknarmenn að sitja í ríkisstjórn sem þeir töldu að ætti að vera ríkisstjórn um afnám verðtryggingar og fella verðbólguáhættu á námsfólk, koma henni af ríkinu og láta námsfólk bera áhættu af verðbólgu allan námstímann áður en fólk er byrjað. Eitt er að bera áhættu í gegnum verðtrygginguna þegar maður er búinn að ljúka námi og nýtur launahækkana sem eru einhvers staðar á pari við hækkun verðtryggingarinnar, en mér finnst býsna langt gengið að láta námsmenn bera verðbólguáhættu og vaxtaáhættu allan námstímann.

Ég tek líka eftir því að menn tala um 3% vexti, en það er afleidd stærð, það er ekki „prímer“ stærð. Það er ekki stærð sem byggir á því að menn segi: Það er vegna þess að við teljum það réttlátt eða eðlilegt. Það er byggt á því sem núna er fyrirliggjandi uppsafnaður fjármögnunarkostnaður sjóðsins. Hann hefur hæst farið í 6,79% segir á bls. 39 í greinargerðinni. Lægstur hefur fjármögnunarkostnaðurinn verið 2,32, en er í dag 2,94.

Mér finnst fullkomlega óeðlilegt að lántakar sem núna eru að fara að taka námslán borgi vanrækslusyndir fyrri áratuga. Er það þannig að leiðréttingarkynslóðin á ekki bara að fá pening úr ríkissjóði núna í leiðréttingu húsnæðislána sinna á kostnað námsmanna sem núna eru í skóla, heldur er það raunverulega þannig að námsmenn framtíðarinnar eigi að greiða niður þau fjármögnunarkjör sem urðu til á fyrri tíð? Mér þætti eðlilegt að ríkissjóður kæmi hér inn og jafnaði þetta út og segði: Frá og með þessum punkti verða það ríkisvíxlar plús álag sem ræður fjármögnunarkjörunum og ríkissjóður tekur á sig mismuninn. Mér finnst í öllu falli fullkomlega óeðlilegt að þær kynslóðir sem eru að koma eigi að borga þennan fjármagnskostnað niður.

Að síðustu eru í þessu nokkur sjónarmið sem mér finnst skipta máli að við horfum á. Ef menn ætla að fara í hreingerningu og uppsóp í lánasjóðnum þá blasir auðvitað líka við að það verður að taka afstöðu til ábyrgðarmannavandans sem hefur verið við lýði undanfarin ár þar sem sjóðurinn hefur gengið harðar fram gagnvart ábyrgðarmönnum vegna eldri lána en áður var gert. Sjóðurinn hefur nýtt til hins ýtrasta glufur sem hann hefur fundið til þess að ganga þar fram. Ég held út frá sjónarmiðum um lögmætar væntingar að það sé fráleitt að halda því fram að ábyrgðarmenn sem skrifuðu upp á fyrir námsmann fyrir 30 árum síðan hafi búist við því að lánið yrði t.d. gjaldfellt. Mér finnst algjörlega fráleitt að heyra það að sjóðurinn keppist við að gjaldfella lán og innheimta þau svo á markaðsvöxtum dagsins í dag. Mér finnst það lágmarkskrafa að ábyrgðarmenn fái að ganga inn í lánið eins og það stendur nú og greiða það til loka á þeim forsendum sem veitt var á í upphafi. Ég þekki a.m.k. marga sem hafa skrifað upp á námslán og hef gert það sjálfur, en ég veit ekki um nokkurn mann sem gerði ráð fyrir því að einhverjir gjaldfellingarmöguleikar yrðu nýttir og að menn mundu borga markaðsvexti af eftirstöðvum sem á þá féllu. Þetta er fyrir utan álitamálið um ábyrgðarmennina og það hvernig ábyrgðirnar erfast sem mér finnst mjög öfugsnúið og finnst mjög brýnt að finna lausn á því. Það er auðvitað ekki rökrétt að námslánið sjálft erfist ekki, en að ábyrgð ábyrgðarmannsins erfist.

Að síðustu, til að taka saman þessa þætti sem mundu gera þetta mál og þessar breytingar miklu, miklu skaplegri. Það er ef greitt væri út mánaðarlega eftir á og ekki verið að vísa fólki á yfirdrætti. Það væri ef menn tækju út þessa fortíðarsyndir í fjármögnuninni og miðuðu fjármögnunina við vænta fjármögnun næstu ára og ríkissjóður einfaldlega axlaði þetta í staðinn fyrir að senda þennan reikning á nýjar kynslóðir. Þá gætum við mögulega verið að horfa á 1% vexti, 2% vexti, einhvers staðar þar á bilinu. Mér finnst líka fullkomlega eðlilegt að tekjutengingin verði skoðuð aftur. Mér finnst einnig eðlilegt að segja að það eigi að vera hærri vextir á skólagjaldalánum. Ég held að það sé alveg rökrétt. Mér finnst líka óeðlilegt að vaxta- og verðtryggingaráhætta liggi á námsmönnum á námstímanum vegna þess að þeir njóta auðvitað ekki verðtryggðra launa á þeim tíma.

Nú er tími minn að renna út. Ég held að ég hafi náð að fara yfir flesta þætti en ítreka að það er gott að sjá breytingar í þá veru að farið verði að veita námsstyrki. En mér þykir eðlilegra að kostnaðurinn við þá sé greiddur að öllu leyti af ríkinu. Svo byggjum við upp námslánakerfi til viðbótar sem haldi í margt af því besta sem við höfðum í fortíðinni.